Sterk staða þjóðarbúsins
Velferð þjóðarbúsins og borgaranna er mælikvarði á hæfni stjórnmálaflokka og manna til að sinna því verkefni sem þeir takast á hendur.
Eftir góð ár koma önnur verri. Þetta ber að hafa í huga við stjórn þjóðarbúa. Velferð þeirra og borgaranna ræðst af þessu og almennt er þessi mælikvarði notaður á hæfni stjórnmálaflokka og manna til að sinna því verkefni sem þeir takast á hendur.
Hvað sem menn segja um bakslagið sem varð í íslensku efnahagslífi haustið 2008 með hruni bankakerfisins verður ekki fram hjá því gengið að ríkissjóður stóð einstaklega vel að vígi og réttar ákvarðanir voru teknar með setningu neyðarlaganna. Þá var gripið til aðgerða til að upplýsa það sem gerðist og láta þá sæta ábyrgð sem gerðust brotlegir við lög.
Bjarni Benediktssons hefur haldið skynsamlega á fjármálum þjóðarinnar og boðar nú breytingar á fjármálastefnu í samræmi við breyttar aðstæður í efnahagsmálum. Myndin birtist í samtali við hann í tímaritinu Þjóðmálum.
Nú þegar harðnar á dalnum stendur ríkissjóður einnig vel eins og þjóðarbúið í heild. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vék að þessu í grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 5. júní og sagði:
„Af óskiljanlegum ástæðum fer það fyrir brjóstið á stjórnarandstöðunni hversu vel ríkissjóður og efnahagslífið allt eru í stakk búin til að takast á við mótvind. Kannski að eftirfarandi færi einhverja birtu inn í fimm þingflokksherbergi sundurþykkrar stjórnarandstöðu:
- Uppsafnaður afgangur af ríkissjóði 2014-2018 er um 85 milljarðar króna, án óreglulegra liða. Afgangurinn er alls 391 milljarður með óreglulegum liðum.
- Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað úr 86% af landsframleiðslu árið 2011 í 28% í lok síðasta árs.
- Hrein erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð um 597 milljarða eða 21% af landsframleiðslu. Umskiptin eru ótrúleg en árið 2015 var staða neikvæð um 5% af landsframleiðslu.
- Uppsafnaður viðskiptaafgangur frá 2013 er um 715 milljarðar og hefur verið jákvæður um 4,5% af landsframleiðslu á ári að meðaltali.
- Kaupmáttur launa hækkaði um nær 40% frá 2011 til 2018.
- Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 30% frá 2011 til 2017, eftir mikinn samdrátt á árunum 2009 og 2010.
- Jöfnuður innan ríkja OECD er hvergi meiri en á Íslandi og við stöndum nokkuð betur að vígi en aðrar Norðurlandaþjóðir.
- Fátækt er hvergi minni og mun minni en í velferðarríkjum Noregs, Finnlands og Svíþjóðar.
- Ísland er fyrirmyndarhagkerfi samkvæmt mati Alþjóðaefnahagsráðsins. Á mælikvarða „Inclusive Development Index“, sem mælir ekki aðeins hagvöxt heldur ýmsa félagslega þætti og hvernig ríkjum tekst að láta sem flesta njóta efnahagslegs ávinnings og framfara og tryggja jöfnuð milli kynslóða, er Ísland í öðru sæti fast á eftir Noregi.
- Tíunda árið í röð eru Íslendingar leiðandi meðal þjóða í jafnréttismálum samkvæmt skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins.
- Í átta ár hefur verið stöðugur hagvöxtur og landsframleiðslan hefur aukist um þriðjung.“
Ágúst Ólafur Ágústsson er aftur kominn á þing fyrir Samfylkinguna og sestur í fjálaganefndina. Hann á jafnan greiða leið með svartnættið inn í fréttatíma ríkisútvarpsins. Að kvöldi laugardags 8. júní flutti hann boðskap sem var í hróplegri andstöðu við birtu hvítasunnunnar.