11.9.2018 10:10

Sterk staða í fjárlagafrumvarpi


Þetta er til marks um ótrúlegan árangur á 10 árum frá því að landið fékk falleinkunn í ruslflokk.

Á yngri árum mínum kom alþingi saman 10. október, sama dag og tvíburasystur föður míns, Ólöf og Guðrún, áttu afmæli og var gjarnan farið í afmæliskaffi eftir að þingsetningu lauk. Þegar ég sat á þingi var setningardegi þess flýtt til 1. október og nú er þingsetningardagurinn 11. september. Á þeim degi er eins og jafnan áður lagt fram fjárlagafrumvap komandi árs og nú hefur blaðamannafundi fjármálaráðherra vegna þess einnig verið flýtt til kl. 08.30 að morgni sem hefði þótt ókristilegur tími á árum áður.

Fjárlagavinnan fer nú að verulegu leyti fram á vorþingi þar sem fjármálaáætlun er til umræðu og afgreiðslu. Í henni eru mótaðar áherslur vegna fjárlagagerðarinnar. Þær birtast m.a. í framkvæmdum við nýjan Landspítala, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og uppbyggingu Húss íslenskunnar.

Gert er ráð fyrir 29 ma. kr. afgangi af rekstri ríkissjóðs, minni álögum á launafólk, hækkun persónuafsláttar og barnabóta. Tryggingagjald á launagreiðendur lækkar. Framlög til heilbrigðis- félags-, húsnæðis- og tryggingamála verða aukin verulega. Til stuðnings vegna húsnæðis verður varið 25 milljörðum og gert er ráð fyrir 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála.

Lánshæfiseinkunn Íslands hækkar jafnt og þétt og er nú metin A/A-1 og A hjá S&P Global og Fitch, með stöðugum horfum en A3 með jákvæðum horfum hjá Moody‘s. Núverandi einkunnir grundvallast á háum þjóðartekjum, sterkum stofnunum, góðum lífskjörum og viðskiptaumhverfi. Þetta er til marks um ótrúlegan árangur á 10 árum frá því að landið fékk falleinkunn í ruslflokk.

Fjr_mynd5Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 658 milljarða króna á sex árum og hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkað úr 86%, þegar það var hæst árið 2011, í 31% í lok þessa árs. Útlit er fyrir að hrein vaxtagjöld verði um 26 milljörðum lægri árið 2019 en árið 2011.

Minnast má þess að á 10. áratugnum var höfuðkapp lagt á að lækka skuldir ríkissjóðs og árangurinn í því efni jók allt svigrúm við fjármálastjórn ríkisins – vaxtagjöldin eru tekin sjálfkrafa af óskiptu og þrengja því að öllum fjárlagaliðum. Sterk staða ríkissjóðs fyrir 10 árum átti síðan verulegan þátt í að auðvelda úrlausn mála við bankahrunið. Þeirri staðreynd er gjarnan gleymt í aðför að stjórnmálamönnum vegna hrunsins. Þeir báru þá beina ábyrgð á stöðu ríkissjóðs eins og þeir gera nú undir forystu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Fjr_mynd4Þróun kaupmáttar er augljóst merki um að allir hafa notið góðs af hagsæld undanfarinna ára. Auðveldara er að grafa undan henni en að tryggja hana í sessi.