23.10.2017 10:10

Staða FRÚ vegna Glitnis-skjalanna versnar

Umræður um miðlun FRÚ úr gögnum Glitnis leiða í ljós bein tengsl fréttamanns við Stundina og Reykjavík Media og auk þess að hann sneri öllu á hvolf í lýsingu á samskiptum þingmanna Sjálfstæðisflokksins við Glitni.

Fjölmargir sýndu áhuga á því sem ég birti hér í dagbókinni í gær um átakanleg vinnubrögð á fréttastofu ríkisútvarpsins, FRÚ, þegar fréttamaður gramsaði í skjalabunkanum frá Glitni sem er í vörslu Stundarinnar þótt lögbann hafi verið sett við birtingu gagnanna. Ég nafngreindi Aðalstein Kjartansson fréttamann enda var hann skráður fyrir efninu sem birtist á ruv.is.

Í umræðum um þennan pistil minn eftir að hann birtist á Facebook sagði Páll Steingrímsson:

„Tilviljanir eru oft einkennilegar og stundum eru skilin á milli tilviljunar og áætlaðs verknaðar lítil og ekki ljós.

Fréttamaðurinn [Aðalsteinn Kjartansson] sem sagði og vann (ekki) fréttina um að Bjarni Benediktsson hefði verið í sambandi við viðskiptabanka sinn fyrir 10 árum er ekki tilviljun heldur hlekkur í úthugsaðri og langvarandi keðju pólitískrar aðfarar að formanni Sjálfstæðisflokksins.

Hann er bróðir ritstjóra Stundarinnar [Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur], fyrrverandi varaformaður ungra jafnaðarmanna Samfylkingarinnar og fyrrverandi starfsmaður Reykjavík Media og nánasti samstarfsmaður Jóhannesar Kr sem því stýrir. Hann tengir saman Stundina, Reykjavík Media og Rúv og kemur úr forystuteymi Samfylkingarinnar.“

Vegna þessa telur Páll Steingrímsson réttilega að menn hljóti að spyrja hvort þeir eigi ekki að geta treyst fjölmiðli sem rekinn er á kostnað skattgreiðenda og einnig hvort slíkur fjölmiðill eigi ekki að vera án pólitískrar slagsíðu.

Svörin við þessum spurningum eru augljós. FRÚ ætti að vera áhyggjuefni hve margir telja vegið er að traustinu sem FRÚ hefur notið vegna metnaðar- og stjórnleysis við miðlun efnis í nafni FRÚ.

Páll Steingrímsson var ekki einn um að lýsa forkastanlegum vinnubrögðum FRÚ. Það gerði meðal annarra Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrv. alþingismaður. Hann lýsir vinnu sem unnin var á vegum þingflokks Sjálfstæðismanna eftir hrun og segir FRÚ snúa öllu á verri veg með því að gera starfshóp innan þingflokksins tortryggilegan en í honum sátu auk Sigurðar Kára, Bjarni Benediktsson og Pétur H. Blöndal og Ólöf Nordal sem bæði eru látin. Sigurður Kári segir:

„Í umfjöllun RÚV var reynt að gera þau samskipti tortryggileg, líkt og við, og þá einkum Bjarni Benediktsson, værum að ganga erinda Glitnis í þeim samskiptum.

Ekkert er fjær sanni.

Umfjöllun RÚV dregur upp kolranga mynd af þeim atburðum sem þarna áttu sér stað og þeim tilgangi sem þeim var ætlað að þjóna.

Sannleikurinn er sá að við sem nafngreind erum í fréttinni vorum að vinna að frumvarpi til breytinga á skuldajöfnunarreglum gjaldþrotaskiptalaga. Tilgangurinn með þeim breytingum var ekki síst sá að koma í veg fyrir að kröfur lífeyrissjóðanna, þ.e. gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir lífeyrisþega í landinu, myndu renna inn í þrotabú gömlu bankanna og þar með enda í höndum erlendra kröfuhafa.

Við vorum, með öðrum orðum, í harðri hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu gegn erlendum kröfuhöfum. Við vorum að reyna að bjarga verðmætum. Við vorum ekki í hagsmunagæslu fyrir Glitni eins og halda mætti og áttum ekki í óeðlilegum samskiptum við starfsmenn þess banka.

Af þeirri baráttu vorum við stolt, ég, Bjarni, Ólöf og Pétur.

Í ljósi alls þessa er í meira lagi einkennilegt fyrir mig, sem var hluti af þessari atburðarás og beinn þáttakandi í henni, að horfa upp á fréttaflutning RÚV nú, þar sem barátta okkar fyrir almannahagsmunum og viðleitni til að bjarga verðmætum er látin líta út sem sérhagsmunagæsla fyrir Glitni banka þar sem reynt er að ósekju að baða þátttöku Bjarna Benediktssonar sama spillingarljóma sem þeir fjölmiðlar sem nú sæta lögbanni hafa reynt að gera um langt skeið.

Það er dapurlegt að horfa upp á fréttastofu Ríkisútvarpsins vera þátttakanda í slíkri vegferð, viku fyrir alþingiskosningar.

Það er ekki hægt að láta hjá líða að gera athugasemdir við framgöngu fréttastofunnar og þess fréttamanns sem í hlut á.“

Líklega er til of mikils mælst að vænta þess að FRÚ geri hreint fyrir sínum dyrum vegna þessara vinnubragða eða biðji þá afsökunar sem hafðir eru fyrir rangri sök með dylgjum um störf þeirra í almannaþágu. Þegar FRÚ hafði veitt veitingastað á Akureyri náðarhöggið með svipuðum vinnubrögðum og hér er lýst brugðust stjórnendur FRÚ við með hroka og rangfærslum.

Ef til vill var aðförin á Akureyri ekki annað en æfing í því hvaða árangri mætti ná með síendurteknum árásum á einn aðila þar sem tilgangurinn helgaði meðalið? Að yfirstjórn þessa opinbera hlutafélags sitji þegjandi og að því er virðist aðgerðalaus þegar þannig er staðið að málum á vegum FRÚ er hvatning fyrir sívaxandi hóp fólks sem er nóg boðið og krefst þess að þessu félagi sem rekið er fyrir sex milljarða á ári, þar af fjóra frá skattgreiðendum, verði einfaldlega slitið.