19.5.2017 18:11

Spunaliðar Samfylkingarinnar ærast vegna Keflavíkurflugvallar

Samherjarnir Heimir Már Pétursson, fréttamaður á visir.is, og Oddný G. Harðardóttir, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, tóku höndum saman í hádeginu föstudaginn 19. maí og affluttu álit meirihluta fjárlaganefndar á fjárlagaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018 til 2022 áður en það var birt.

Jafnaðarmannaflokkar um alla Evrópu eru í sárum. Ekki er nein einhlít skýring á ógöngum þeirra. Víst er að verst fara þeir sem neita að horfast í augu við breytingar og standa gegn öllum hugmyndum um nýjar lausnir. Samfylkingin er flokkur af þessu tagi. Hann er líka að verða að engu.

Samherjarnir Heimir Már Pétursson, fréttamaður á visir.is, og Oddný G. Harðardóttir, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, tóku höndum saman í hádeginu föstudaginn 19. maí og affluttu álit meirihluta fjárlaganefndar á fjárlagaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018 til 2022 áður en það var birt. Fréttin ber vott um örvæntinguna sem ríkir meðal Samfylkingarfólks. Ekki er hikað við að grípa til innstæðulauss spuna í von um að tolla í „umræðunni“.

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, birti kaflann úr áliti meirihlutans sem þau Heimir Már og Oddný notuðu við falsfréttaflutning sinn. Í áitinu stendur:

„Meirihluti fjárlaganefndar telur einnig tímabært að opna umræðu á það að ríkið leiti leiða til að umbreyta því fjármagni sem bundið er í mannvirkjum í flugstöðinni í Keflavík til að nota til átaks í endurbótum samgöngumannvirkja. Slík aðgerð væri því tilfærsla á fjárfestingum í samgöngumannvirkjum.“

Í upphafi fréttar Heimis Más hljóðar þetta svona:

„Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að skoðað verði að einkavæða eignir ríkisins á Keflavíkurflugvelli, þar með flugstöð Leifs Eiríkssonar og söluandvirðið nýtt til átaks í samgöngumálum. Fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni segir þetta arfavitlausa hagstjórn og mikilvægt sé að aðalhliðið til og frá landinu sé í eigu ríkisins. [...]

Það vekur líka athygli að meirihlutinn leggur til að skoðað verði að selja eignir ríkisins á Keflavíkurflugvelli, þar með flugstöð Leifs Eiríkssonar.“

Oddný situr í fjárlaganefnd fyrir Samfylkinguna og segir:

„Mér finnst að mikilvægasta hliðið okkar til og frá landinu eigi að vera í opinberum rekstri. Og eigi ekki að ganga kaupum og sölum. Svo er það náttúrlega arfavitlaus hagstjórn að ætla að ætla að fara að selja svo verðmæta eign núna og setja fjármunina í vegakerfið. Núna þegar spennan í hagkerfinu er svona mikil. Þannig að þetta er afleit hugmynd.“

Heimir Már segir að nefndir hafi verið allt að 200 milljarðar þegar rætt sé um verðmæti eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli. Hann sér í „fljótu bragði“ ekki marga eða nokkurn í landinu sem hefði efni á að kaupa eignirnar.

„Þetta yrði auðvitað boðið til sölu á evrópska efnahagssvæðinu geri ég ráð fyrir. Þannig að það geta allir boðið í ef þetta fer á markað,“ segir Oddný.

Segist Heimir Már hafa heimildir um að „stórir alþjóðlegir aðilar sem sérhæfa sig í rekstri flugvalla“ hafi „þegar sýnt því áhuga að taka yfir Keflavíkurflugvöll“, þeir hafi „fjárhagslegt bolmagn til þess. Þar með yrðu yfirráðin yfir flugstöðinni og jafnvel flugvellinum komin í hendur erlendra aðila,“ segir spunaliðinn á stóli fréttamannsins.

Spunanum lýkur á þessum orðum:

„Það er bara svo mikilvægt að svona starfsemi fyrir okkur sem eyþjóð sé í opinberum rekstri. Að það séu ekki einhver öfl sem ætli að græða á rekstrinum sem fara með svona mikilvæga starfsemi fyrir okkur Íslendinga. Mér finnst þetta bara óhugsandi. Eins og ég segi; þetta er bæði óskynsamleg hagstjórn og þetta er líka óskynsamleg stýring á hliðinu inn og út úr landinu,“ segir Oddný G. Harðardóttir.“

Hvað skyldi Oddný eiga við með orðunum „stýring á hliðinu“? Varla heldur hún að bygging þurfi að vera í eigu ríkisins til að þar starfi landamæra- og tollverðir? „Stýringu á hliðinu“ er þannig háttað um þessar mundir að menn tala ekki lengur um örtröð við komu til flugstöðvarinnar heldur martröð.

Þá er sífellt fleiri flugvélum lagt fjarri flugstöðinni við komu til landsins. Tafir við að tæma þær eru miklar, til dæmis ef um farþega í hjólastól er að ræða. Eru dæmi um að viðkomandi farþegi og áhöfn vélar hans hafi orðið að bíða sérstaklega í allt að 40 mínútur eftir bíl sem getur flutt þann sem bundinn er við hjólastól úr flugvél inn í flugstöðina. Er það þessi „stýring á hliðinu“ sem Oddný vill viðhalda?

Í grein í Morgunblaðinu í dag fjallaði ég á áhlaupið á landamæri Íslands á Keflavíkurflugvelli. Hana má lesa hér.