30.4.2018 12:22

Spáð í spilin í launamálum

Þrátt fyrir ákvarðanir Kjararáðs hefur verið samið við alla innan BHM nema ljósmæður. Samningar við framhaldsskólakennara liggja einnig fyrir. Verstu hrakspár um afleiðingar ákvarðana ráðsins hafa ekki ræst

Í grein sem Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs, birti fyrir skömmu í Vísbendingu, vikuriti um efnahagsmál og nýsköpun, undir fyrirsögninni Hálaunalandið Ísland segir meðal annars:

„Stundum heyrist að á Íslandi sé rekin láglaunastefna. Því er skemmst frá að segja að sú stefna hefur mistekist hrapallega og er það vel. Laun á Íslandi eru með því hæsta sem gerist og óvíða jafnari. En vegna lakari hagvaxtarhorfa, sterkrar krónu og fleiri þátta eru allar líkur á því að almennar launahækkanir í líkingu við árin 2015–2017 myndu leiða af sér aukna verðbólgu sem allir tapa á. Engu að síður heyrast víða óánægjuraddir, enda ýmislegt sem má bæta í kjörum margra stétta. Og hver vill ekki hærri laun? Vandinn er þó ekki að laun séu almennt of lág. Vandinn liggur annars staðar og er allavega tvíþættur. Annars vegar afglöp kjararáðs og hins vegar fordæmalítill húsnæðisskortur. Það stendur til að gjörbreyta kjararáði og frysta laun þeirra sem þar falla undir og húsnæðismálin eru að þróast í rétta átt. Mögulega þarf þó meira til, sérstaklega í húsnæðismálum.“

Kjararáð kollsigldi sig, rökstuðningurinn fyrir ákvörðunum þess var í skötulíki eða stóðst ekki gagnrýni. Þrátt fyrir ákvarðanir ráðsins hefur  verið samið við alla innan BHM nema ljósmæður. Samningar við framhaldsskólakennara liggja einnig fyrir. Verstu hrakspár um afleiðingar ákvarðana ráðsins hafa ekki ræst. Til ákvarðana þess er þó enn vísað þegar blásið er sóknar á vegum ASÍ. Það var raunar einnig gert í febrúar þegar talað var fram á síðasta dag um að forsendur kjarasamninga væru brostnar. Samingunum var þó ekki rift.

Undanfarið hefur hér verið rætt um för til Ísraels. Þegar heimamaður í Jerúsalem var spurður hvort framkvæmdin á ákvörðun Donalds Trumps um að flytja sendiráð Bandaríkjanna til Jerúsalem mundi hleypa öllu í bál og brand taldi hann það ólíklegt. Palestínumenn í Austur-Jerúsalem hefðu ekki síður hag af því en gyðingar að friður og stöðugleiki héldist í borginni. Þegar á reyndi hefðu þeir ekki mikinn vilja til að elta þá sem lengst vildu ganga.

Í verkalýðsfélaginu Eflingu hlaut B-listi, nýtt framboð sem Sólveig Anna Jónsdóttir leiddi, 2099 atkvæði eða um 80% greiddra atkvæða. A-listi sem studdur var af fráfarandi stjórn hlaut 519 atkvæði. Af 16.578 félagsmönnum á kjörskrá nýttu einungis 2.618 atkvæðisrétt sinn. Á heimasíðu Eflingar eru félagsmenn sagðir 27.000 en 10.000 þeirra eru því ekki á kjörskrá og greiddu aðeins um 10% félagsmanna atkvæði í kosningunum. Sigurlisti Sólveigar Önnu nýtur því aðeins stuðnings um 8% félagsmanna. Þessar tölur sýna lítinn vilja til að beita félaginu til að valda uppnámi. Félagsmenn elta ekki endilega þá sem lengst vilja ganga.

IMG_3608Byggingaframkvæmdir í 101 Reykjavík.

Konráð S. Guðjónsson nefnir einnig húsnæðismálin. Velja má um stefnu í þeim í sveitarstjórnarkosningunum. Þar eru skýrar línur milli stóru flokkanna í Reykjavík. Samfylkingin vill byggja fyrir fáa til að þétta byggð, Sjálfstæðisflokkurinn vill byggja fyrir marga og hlú að úthverfum en ekki aðeins 101 og 107. Samfylking vill viðhalda húsnæðisskorti, Sjálfstæðisflokkur leysa hann.