9.8.2022 10:07

Skógrækt í ógöngum

Orð skógræktarstjóra í garð Skorradalshrepps falla að skoðun Hildar Hermóðsdóttur, að skógræktin sé orðin ríki í ríkinu sem „þykist hvorki þurfa að fara eftir lögum né reglum“.

Hreppsnefnd Skorradalshrepps synjar umsókn skógræktarinnar, ríkisstofnunar, um leyfi til framkvæmda í Stóru Drageyri og Bakkakoti, jörðum innan hreppsins. Skógræktin kærir ákvörðun hreppsnefndarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er málið nú í því ferli.

Í leyfisleysi sendi skógræktin jarðýtu til að leggja fyrir sig „vinnuslóða“ sem myndaði svöðusár, einskonar sorgarrönd, í hlíðum Dragafells. Ætlar skógræktin að planta trjám á Botnsheiði. Þar hafa verið plægð djúp för í landið.

Í Morgunblaðinu í dag (9. ágúst) segir Sigurður Hjalti Magnússon plöntuvistfræðingur, sem starfað hefur hjá Náttúruverndarstofnun við vistkerfaflokkun, að stór hluti þess lands sem skógræktin ætlar að nýta sé votlendi, sumt sé „flói, sem er ein blautasta gerð votlendis, og svo er deiglendi meðfram lækjum“. Þá segir hann „Skógræktin segist ekki planta í votlendi, en samkvæmt þessu er það ekki rétt. Þeir eru búnir að plægja þetta svæði og þetta er votlendi.“

Votlendi nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

296035970_10160039539244233_7999388164938106919_nGunnlaugur Auðunn Júlíusson, leiðsögumaður með meiru, fór inn á Botnsheiði undir lok júlí og tók meðal annars þessa mynd sem hann birti á Facebook og sagði: „Þar gekk ég um ca 30 hektara svæði sem hefur verið rist sundur til að búa í haginn fyrir skógrækt (birkikjarr). Þetta svæði er frá 180 metra hæð upp í um 300 metra hæð. Þarna er ekkert skjól og landið hallar á móti norðri.“

Í frétt Morgunblaðsins er rætt við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra. Hann gerir ekkert með ákvörðun hreppsnefndarinnar í Skorradal, þá sé alls ekki stefnt að því að fylla í plógförin í votlendinu. Skógræktin ætli að reka málið þar til framkvæmdaleyfi fæst!

Þetta er valdsmannslegur tónn opinbers embættismanns. Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Hildi Hermóðsdóttur, umhverfissinna og fyrrverandi útgefanda, sem segir að „stríðsástand“ sé að skapast milli skógræktarfólks og umhverfissinna sem of lengi hafi vart þorað að láta í sér heyra því öllum brögðum sé beitt til að þagga niður eðlilega umræðu um stefnuna í skógræktarmálum. „Þeir sem leyfa sér að andmæla eða leggja til að farið verði með gát eru stimplaðir öfgamenn eða jafnvel fasistar,“ segir Hildur.

Orð skógræktarstjóra í garð Skorradalshrepps falla að skoðun Hildar, að skógræktin sé orðin ríki í ríkinu sem „þykist hvorki þurfa að fara eftir lögum né reglum“. Þá segir Hildur að umgengni um skógræktarsvæði sé „víða fyrir neðan allar hellur“. Nefnir hún þar til dæmis skóginn í landi Stálpastaða í Skorradal sem líti út eins og illa hirt iðnaðarsvæði. Þar liggi slóðar þvers og kruss, brotin tré eins og hráviði og önnur umhirða sé eftir því.

Undir miðja síðustu öld hóf skógræktin að rækta skóg við Múlakot í Fljótshlíð fyrir austan frægan garð Guðbjargar Þorleifsdóttur frá 1897, einn elsta og merkasta einkagarð landsins. Guðbjargargarði er vel við haldið og vex aðdráttarafl hans ár frá ári. Sama verður ekki sagt um reit skógræktarinnar sem hún kallar þó þjóðarskóg og trjásafn.

Fyrir nokkrum árum bentu þeir sem standa að endurreisn Guðbjargargarðs og gamla bæjarins í Múlakoti skógræktinni á að hún ætti að sýna eigin reit meiri ræktarsemi, til dæmis að sjá til þess að niðurníddur asbestkofi yrði rifinn. Ekkert gerist. Trjásafnið er engum til gleði. Þangað leggur enginn leið sína sökum hirðuleysis.

Svöðusár í skógarhlíðum eða illa hirt trjásöfn bera skógrækt ekki fagurt vitni.