9.6.2021 6:59

Skimanir erlendra fjárfestinga

Verði ekki skipulega tekið á skimun erlendra fjárfestinga verða íslensk fyrirtæki sett í fjölþjóðlegan skammarkrók fyrir utan hættuna sem steðjar að viðskiptavinum innan lands.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu laugardaginn 5. júní að Albert Guðmundsson laganemi hefði skoðað regluverk um skimun erlendra fjárfestinga í nýrri meistaraprófsritgerð. Hvetur hann íslensk stjórnvöld til að taka upp skipulegar skimanir á erlendri fjárfestingu. Undir þá hvatningu skal eindregið tekið. Í mörgu tilliti er þar í raun ekki um val að ræða heldur skyldu. Samstarf vinveittra ríkja er reist á því að þau meti og skilyrði fjárfestingar með vísan til þjóðaröryggis.

Í frétt Fréttablaðsins segir að í skimuninni felist að ríki geti metið, heimilað, skilyrt, bannað eða undið ofan af erlendum fjárfestingum á grundvelli þjóðaröryggis.

Albert Guðmundsson segir að mikilvægt sé að lagareglur um skimanir séu skýrar og fyrirsjáanlegar og feli ekki í sér dulda mismunun:

„Skimanir nágrannalanda taka iðulega til fjárfestinga innan ákveðinna geira eða þvert á geira og miða þá yfirleitt við ákveðinn þröskuld. Til dæmis ef fjárfestingar ná ákveðnum þröskuldi, segjum 10 til 25 prósenta eignarhlut, þá fer skimunarkerfið í gang.“

Hann bendir á að í íslenskum lögum sé hvergi skilgreint hvaða grunnvirki eða innviðir teljist þjóðhagslega mikilvægir. Segist hann hafa skoðað sérstaklega íslensku fyrirtækin Auðkenni ehf. og Creditinfo.

Starfsemi beggja fyrirtækjanna snýr að brýnum einstaklings- og samfélagsbundnum hagsmunum. Í opinberum umræðum hefur komið fram að hugsanlegt sé að ríkissjóður kaupi Auðkenni ehf. Við ákvörðun um það hlýtur að verða litið til þess hve mikilvægt sé að tryggja innlent forræði yfir viðkvæmum upplýsingum sem þar eru innan dyra. Sömu sögu er að segja um Creditinfo en með misbeitingu gervigreindar er unnt að stýra miðlun upplýsinga úr gagnagrunni þess til gífurlegs tjóns á lána- og fjármálamarkaði.

959930Sir Jim Ratcliffe (mynd: mbls.is)

Almennt vitum við minna um erlendar fjárfestingar í einstökum fyrirtækjum en í grunngreinum eins og sjávarútvegi, þar sem eignarhaldi útlendinga eru sett lögbundin takmörk, og landbúnaði þar sem athygli beindist fyrir nokkrum árum að kínverska fjárfestinum Huang Nubo, sem ekkert land keypti, og nú að breska auðmanninum Sir Jim Ratcliffe sem keypt hefur mikið land á norðausturhorni landsins.

Ari Brynjólfsson, blaðamaður Fréttablaðsins, spyr Albert hvenær fjárfesting ógni þjóðaröryggi. Líta verður til margra þátta. Í fyrsta lagi verður að greina og samþykkja að öryggismunur sé á innlendum og erlendum fjárfestingum. Í öðru lagi verða íslensk stjórnvöld að setja skimunarkerfi í lög. Í þriðja lagi verða lögin að taka mið af því að það „er alltaf á ábyrgð ríkja að tryggja sitt eigið þjóðaröryggi. Það er enginn annar að fara að passa upp á þjóðaröryggi okkar.“

Íslenskum stjórnvöldum voru fyrir nokkru sett skilyrði, beitt viðskiptalegum refsiaðgerðum, vegna þess að ekki var staðið nægilega vel að vörnum gegn peningaþvætti. Verði ekki skipulega tekið á skimun erlendra fjárfestinga verða íslensk fyrirtæki sett í fjölþjóðlegan skammarkrók fyrir utan hættuna sem steðjar að viðskiptavinum innan lands.