Skautun skuggaheima magnast
Í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra liggja fyrir allar upplýsingar um hvert stefnir hér vegna skautunar í skuggaheimum samfélagsins.
Undir lok stefnuræðu sinnar 14. september 2022 sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
„Skautunarstjórnmálin munu ekki leysa neitt heldur dýpka ágreininginn og leiða til átaka á tímum sem kalla einmitt á að fólk með ólíkar lífsskoðanir tali saman og leiti saman lausna gagnvart þessum stóru áskorunum.“
Deilur á alþingi í seinni tíð hafa orðið einna hatrammastar um útlendingamál. Föstudaginn 16. september hækkaði embætti ríkislögreglustjóra viðbúnaðarstig á landamærum á hættustig vegna yfirálags til þess að tryggja örugga móttöku hælisleitenda. Embættið reiknar með að þeim fjölgi hlutfallslega meira á síðustu mánuðum ársins en á sama tíma eru búsetuúrræði þegar nánast fullnýtt, sagði í tilkynningu frá embættinu.
Miðvikudaginn 21. september handtók lögreglan fjóra einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar á brotum sem snúa að landráði, broti gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Fimmtudaginn 22. september sagði lögreglan að handtökurnar tengdust rannsókn á ætluðum undirbúningi íslenskra karlmanna á þrítugsaldri að hryðjuverkum.
„Lögreglan mun hafa sett vörð um Alþingishúsið svo lítið bar á, en einnig er rætt um að mennirnir hafi sýnt árshátíð lögreglumanna, sem halda á í næstu viku, sérstakan áhuga,“ segir í frétt Morgunblaðsins 22. september. Handteknu mennirnir eigi sér fyrirmyndir í þjóðernisöfgum á Norðurlöndum. Í húsleit hafi lögregla fundið ofstækisáróður og kanni hún tengsl við norræna öfgahópa.
Hryðjuverkahópar starfa eftir sama mynstri og aðrir skipulagðir glæpahópar. Allt kapp er lagt á að ávallt komi maður í manns stað og aldrei takist að ná til þess sem í raun stjórnar ferðinni. Einingar stækka og minnka eftir því sem að þeim er þrengt eða talið er þjóna málstaðnum og glæpaverkunum.
Áhrifamesta leiðin til að halda slíkum ófögnuði frá íslensku samfélagi felst í öflugri löggæslu sem hefst við landamærin. Um og yfir 98% allra sem koma hingað til lands fara um einu og sömu landamærastöðina, flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Sé hún ekki skilgreind sem upphafspunktur í eftirlitskerfi sem lýtur daglegri yfirstjórn embættis ríkislögreglustjóra í beinum tengslum við embætti héraðssaksóknara er ekki beitt öflugustu aðferðinni til að setja hlutina í það samhengi sem er nauðsynlegt við nýjar aðstæður.
Þessi skipulagsbreyting er einföld í framkvæmd og undarlegt að ekki skuli hafa verið gripið til hennar fyrir löngu samhliða auknum fjárveitingum til greiningar og landamæravörslu.
Í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra liggja fyrir allar upplýsingar um hvert stefnir hér vegna skautunar í skuggaheimum samfélagsins, aukins álags vegna hælisleitenda og andstöðu eða tregðu á stjórnmálavettvangi við að hrinda nauðsynlegum breytingum í framkvæmd til að efla löggæslu og styrkja lögreglu.
Fréttirnar nú verða vonandi til þess að ríkisstjórn og alþingi „hrökkvi í gírinn“ í stað þess að lýsa undrun og vonbrigðum, slíkar yfirlýsingar breyta engu.