Sjúkrahúsrekstur með minnisblöðum til ráðherra
Sú skoðun að mest fáist fyrir skattfé með því að ríkið stjórni öllum rekstri og teknar séu lokaákvarðanir af ráðherra á grundvelli minnisblaða frá læknum stenst einfaldlega ekki.
Forvitnilegt verður að sjá hvaða áhrif það hefur á umræður um rekstur sjúkrahúsa hér að Björn Zoëga fékk tækifæri til að skýra lesendum Morgunblaðsins frá því hvernig hann sneri við rekstri Karolinska-sjúkrahússins í Stokkhólmi. Hann beitti allt öðrum aðferðum en eiga upp á pallborðið hjá ráðamönnum sjúkrahúsmála hér.
Björn segir að fullreynt sé að fjármagna sjúkrahúsrekstur með föstum fjárframlögum. Tengja verði afköst og gæði þjónustunnar við það sem ríkissjóður reiði af hendi. Þá hafi stofnanir tilhneigingu til þess að hugsa hlutina upp á nýtt, hagræða og einfalda rekstur í þágu sjúklinga og starfsfólks.
DDæmigerð mynd úr COVID-stríðinu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hittir blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund og segist ætla að kynna ákvörðun sína á grundvelli minnisblaðs sóttvarnalæknis (mynd: mbl.is).
Það er einkennilegt ef takast þarf á um einföld sannindi sem þessi í kosningabaráttu hér á landi en því er spáð að heilbrigðismálin verði eitt af helstu átakamálum fyrir þingkosningarnar 25. september og ágreiningurinn snýst ekki síst um ráðstöfun á fé skattgreiðenda til málaflokksins.
Sú skoðun að mest fáist fyrir þessa fjármuni með því að ríkið stjórni öllum rekstri og teknar séu lokaákvarðanir af ráðherra á grundvelli minnisblaða frá læknum stenst einfaldlega ekki. Takist ekki að hnekkja réttmæti þessarar skoðunar á næstu vikum og leggja nýjan grunn að pólitískum ákvörðunum um starfsumgjörð lækna og sjúkrahúsa en minnisblaða-aðferðina er illt í efni á næstu fjórum árum.
Ari Kristinn Jónsson sem verið hefur rektor Háskólans í Reykjavík (HR) frá janúar 2010 hverfur nú til starfa sem framkvæmdastjóri netöryggisfyrirtækisins AwareGO. Vegna hættulegrar þróunar í netheimum þar sem fjárkúgun eykst með innbrotum í tölvukerfi beinist athygli sífellt meira að lausnum á borð við þær sem AwareGO býður fyrirtækjum til að vernda tölvukerfi og gögn með þjálfun starfsfólks í réttum viðbrögðum gegn tilraunum til innbrots. Þá hefur AwareGO þróað hugbúnað sem greinir hættur sem steðja að hverju fyrirtæki.
Í Markaðnum fylgiblaði Fréttablaðsins er í dag (18. ágúst) rætt við Ara Kristin og hann meðal annars spurður um hvað fylli hann mestu stolti eftir 11 ár í forystu HR. Hann nefnir tvennt:
Í fyrsta lagi hve vel tókst rétta við bágborinn fjárhag skólans eftir bankahrunið:
Með samheldnu átaki var rekstrinum gjörbreytt, fyrst og fremst með því að auka tekjur. Nemendum fjölgaði, samstarf við atvinnulífið var eflt og fjármuni sóttir í meira mæli í samkeppnissjóði til að sinna rannsóknum.
Í öðru lagi að mikill árangur náðist í gæðum og framþróun kennslu. Stöðugt fleiri sækist eftir að fá tækifæri til náms í HR. Allar úttektir, vottanir og skýrslur sýni að skólinn sé á réttri leið. HR sé til dæmis efstur íslenskra háskóla á lista Times Higher Education. Hlutverk skólans sé að mennta fólk á þann veg að það nýtist til að skapa verðmæti í atvinnulífinu og auka lífsgæði í samfélaginu.
Það ætti að bera þessi orð Ara Kristins saman við úrtöluraddir einkarekstrar í háskólastarfsemi hér á landi fyrir tæpum aldarfjórðungi. Væri það gert reyndust þær álíka hjáróma og raddir þeirra sem enn þann dag í dag vilja ekkert annað en ríkisrekstur sjúkrahúsa og heilbrigðiskerfis á Ísland á grundvelli minnisblaða til ráðherra með ofurtrú á ríkisvæðingu.