10.4.2019 10:09

Sjálfstæðisflokkurinn og þriðji orkupakkinn

Að halda því fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins brjóti gegn samþykktum flokks síns með því að samþykkja þriðja orkupakkann er rangt.

Í umræðunum um þriðja orkupakkann sést því stundum haldið fram að með því að samþykkja hann brjóti þingmenn Sjálfstæðisflokksins gegn ályktunum á 43. landsfundi flokksins, 16. til 18. mars árið 2018. Forvitnilegt er að huga að þessu.

845105Frá 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16. til 18. mars 2018.

Í ályktun atvinnuveganefndar landsfundarins segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Það er ekki um neitt slíkt framsal að ræða með þriðja orkupakkanum auk þess sem orðin „frekara framsal“ eru einfaldlega röng. Þessi ályktun er því í fyrsta lagi efnislega röng og í öðru lagi fjallar hún um annað en þriðja orkupakkann.

Í stjórnmálaályktun landsfundarins segir:

„Viðskiptafrelsi er einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggja sem víðtækast frelsi í milliríkjaviðskiptum og afnám viðskiptahindrana.“

Samþykkt þriðja orkupakkans er í anda þessara orða.

Í utanríkismálaályktun landsfundarins segir:

„Mikilvægt er að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. [...] Nú þegar aldarfjórðungur er liðinn frá undirritun EES samningsins er tímabært að gera úttekt á reynslu Íslands af honum. Áríðandi er að haldið verði áfram að efla hagsmunagæslu innan ramma EES og tryggja að möguleikar Íslands til áhrifa á fyrri stigum EES mála verði nýttir til fulls. Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn sem felur í sér valdheimildir sem fellur utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins.“

Þarna er lýst stuðningi við EES-samninginn. Mælt er með úttekt á reynslunni af honum í 25 ár, að henni er unnið. Mælt er með aukinni hagsmunagæslu innan EES, hún hefur verið efld. Hvatt er til þess að tveggja stoða kerfið sé virt. Það er gert í orkumálum og þriðji orkupakkinn hróflar ekki við því.

Á opnum fundi hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 30. ágúst 2018 flutti Svanur Guðmundsson eftirfarandi tillögu sem var samþykkt:

„Fundurinn skorar eindregið á forystu Sjálfstæðisflokksins að hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins á þeim grunni, að hann stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar, opnar Evrópusambandinu leið til yfirráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækkar verð á raforku og þar sem afleiðingar til langs tíma eru óvissar.“

Ekkert af þessu felst í innleiðingu þriðja orkupakkans eins og málið liggur nú fyrir alþingi og mælir Svanur Guðmundsson nú með því að hann verði innleiddur, megi marka orð hans á Facebook.

Að halda því fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins brjóti gegn samþykktum flokks síns með því að samþykkja þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra eða tillögur Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra vegna þriðja orkupakkans er rangt.