14.3.2019 10:59

Sigríður Á. Andersen stígur til hliðar

Sigríður varð að hafa snör handtök og síðan er talið að hún hafi ekki gefið sér nægan tíma til að vega og meta þá sem dómnefnd taldi hæfa en komust ekki nógu hátt á excel-skjalinu.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að víkja til hliðar í gær (13. mars) og hverfur úr ríkisstjórninni í dag. Sigríður sagðist standa föst á þeirri skoðun sinni að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) gæfi ekki tilefni til afsagnar hennar sem dómsmálaráðherra. Hún hefði tekið ákvörðun um að stíga til hliðar eftir að hafa skynjað að persóna hennar kynni að trufla þær ákvarðanir sem teknar yrðu í ráðuneytinu. Sigríður sagði að með ákvörðun sinni vildi hún skapa vinnufrið svo takast mætti á við málið innan dómsmálaráðuneytisins. Ákvörðun hennar tæki mið af hinum pólitíska veruleika, en ekki þeim lögfræðilega. „Þetta er hinn pólitíski veruleiki. Ég ann dómstólunum of mikið til þess að láta það gerast að menn kunni að hengja sig á það að ég hafi haft aðkomu að þeim ákvörðunum sem þar verða teknar,“ sagði hún í Morgunblaðinu.

1119665Kristinn Magnússon tók þessa mynd fyrir mbl.is af Sigríði Á. Andersen í dómsmálaráðuneytinu 13. mars 2019,

Öll þessi sjónarmið ber að virða um leið og einnig ber að virða að þingmenn undir forystu þáv. stjórnarflokks, Viðreisnar, gerðu Sigríði afturreka með tillöguna sem hún fékk í hendur frá nefndinni sem lagði mat á hæfi umsækjenda eftir punktakerfi í excel-skjali. Töldu þingmenn að hlutur kvenna væri of lítill. Sigríður varð að hafa snör handtök og síðan er talið að hún hafi ekki gefið sér nægan tíma til að vega og meta þá sem dómnefnd taldi hæfa en komust ekki nógu hátt á excel-skjalinu. Að vinnubrögð nefndarinnar hafi verið talin til fyrirmyndar en ráðherrans brjóta í bága við stjórnsýslulög er eitt af furðuverkum þessa máls alls.

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, varar við því í fjölmiðlum að menn oftúlki ekki niðurstöðuna frá Strassborg og áhrif hennar á réttarkerfið hér.

Í lögunum um lagagildi mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi segir: „Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.“

Þetta ber að hafa í huga í umræðum hér og einnig að kæra má niðurstöðu þá sem hér veldur óvissu til yfirdeildar MDE og öðlast niðurstaðan ekki gildi fyrr en þriggja mánaða kærufrestur er útrunninn. Þá hafa ráðherrar lýst yfir áformum um að kæra til yfirdeildarinnar.

Ríkisstjórnin hefur tekið þetta mál föstum tökum. Dómskerfið þarf að hrista allan vafa af sér. Verði það ekki gert án atbeina alþingis hlýtur hann að verða veittur. Að stjórnarandstaðan komi fram af ábyrgðarleysi liggur í eðli hennar og þeirra sem koma fram fyrir hennar hönd.