27.2.2019 11:42

Seðlabankinn féll á haftaprófinu

Þegar embættismenn fengju haftavald skapaðist hætta á ofríki. Sannast hefur að áhyggjur af þessu tagi áttu því miður fullan rétt á sér.

Þegar gjaldeyrishöftin voru sett eftir hrunið í október 2008 blasti sú hætta við að af þeim yrðu vandræði í framkvæmd. Þegar embættismenn fengju haftavald skapaðist hætta á ofríki. Sannast hefur að áhyggjur af þessu tagi áttu því miður fullan rétt á sér. Seðlabanki Íslands féll á prófinu þegar hann framfylgdi höftunum.

Nú rúmum 10 árum eftir höftin voru sett sendir bankaráð Seðlabanka Íslands frá sér greinargerð til forsætisráðherra með þungum áfellisdómi um hvernig staðið var að þessum málum af hálfu bankans. Í niðurstöðu bankaráðsins segir meðal annars:

„Frá efnahagslegu sjónarmiði virðist því hafa tekist nokkuð vel til með höftin. […] Hins vegar tókst ekki jafnvel til með framfylgd og setningu haftanna að ýmsu öðru leyti. Sérstaklega vekur athygli að málarekstri og kærum Seðlabanka og þar áður FME vegna meintra brota á höftunum hefur nánast að öllu leyti verið hafnað af dómstólum eða saksóknurum. Þá hefur þeim stjórnvaldssektum sem bankinn hefur lagt á í mörgum tilfellum verið hnekkt af dómstólum þegar á þær hefur verið látið reyna. […] Þá hefur stjórnsýsla bankans í tengslum við gjaldeyriseftirlit sætt harðri gagnrýni.

Nú, þegar höftunum hefur að langmestu leyti verið aflétt,er eðlilegt að Seðlabankinn taki þessa sögu alla til gaumgæfilegrar skoðunar og dragi af henni lærdóm.“

Undir þennan málamiðlunartexta skrifa allir bankaráðsmenn en að auki fylgja greinargerðinni bókanir einstakra bankaráðsmanna og í bókun sinni fara Sigurður Kári Kristjánsson og Þórunn Guðmundsson ítarlega yfir meginþætti gagnrýninnar á stjórnsýslu seðlabankans. Ganga þau lengra í gagnrýni en í sameiginlega orðalaginu. Þá segja þau að af hálfu yfirstjórnar bankans hafi verið fundið að vinnubrögðum bankaráðsins og reynt að beina þeim inn á ákveðnar brautir. Þau vekja einnig máls á því hvernig yfirstjórn bankans kom fram gagnvart umboðsmanni alþingis og hvetja þingmenn til „að taka framgöngu yfirstjórnar bankans í samskiptum sínum við til sérstakrar umfjöllunar og skoðunar“.

Umbodsmadur_skuldara2_0Þegar þessi lýsing á framgöngu yfirstjórnar bankans gagnvart sjálfu bankaráðinu og umboðsmanni alþingis er lesin vekur minni undrun en ella að af hálfu yfirstjórnarinnar hafi verið talað niður til einkaaðila og leitast við að beita þá ólögmætri hörku. Þótt höftin hafi greinilega dregið fram verstu starfshætti innan stjórnsýslunnar er ekki við þau að sakast heldur þá sem völdin höfðu við framkvæmd þeirra.