23.8.2019 9:04

Samstarfsyfirlýsing í Reykholti

Hugmyndin er sem sagt að innan ramma verkefnisins sameini fræðimenn á ýmsum sviðum krafta sína til að afla víðtækrar vitneskju um hvernig staðið var að gerð handritanna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og ég sem stjórnarformaður Snorrastofu vorum í gær í Reykholti og rituðum undir samstarfsyfirlýsingu um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hafði áður ritað undir yfirlýsinguna. Í henni felst fyrirheit um að frá og með árinu 2020 muni ríkissjóður leggja 35 m. kr. á ári í fimm ár til þessara rannsókna. Guðrún Nordal er formaður fagráðs vegna verkefnisins en Snorrastofa sér um daglega umsýslu.

69355097_2405458939575006_1184949140157628416_oEinbeitingin leyndi sér ekki við undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar í Snorrastofu í Reykholti fimmtudaginn 22. ágúst. Frá vinstri: Guðrún Nordal, Katrín Jakobsdóttir, Lilja D. Alfreðsdóttir, Björn Bjarnason. Guðlaugur Óskarsson í Reykholti tók myndina.

Í aðdraganda þess að ráðherrunum var kynnt þessi hugmynd sömdu Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, og Friðrik Erlingsson rithöfundur greinargerð um það sem að baki verkefninu býr. Þar segir í upphafi:

„Höfundar íslenskra fornbókmennta voru fyrst og fremst prestlærðir menn ásamt munkum og nunnum, aðallega í klaustrum landsins, en einnig á höfðingjasetrum eins og Odda, Reykholti og Staðarhóli. Á öllum þessum stöðum var stunduð umfangsmikil bókmenntastarfsemi, alveg frá elstu tíð íslensks ritmáls.

Líklegt er að höfðingjar hafi látið gera fyrir sig bækur, bæði á höfðingjasetrum og í klaustrum, og að klaustrin hafi aflað sér tekna með sama hætti og prentsmiðjur og bókaforlög nútímans, þ.e. með skapandi skrifum, þýðingum og afritun bókmenntaverka samkvæmt pöntun, jafnvel frá útlöndum, eins og Stefán Karlsson, handritafræðingur, fjallaði um á sínum tíma. Nærtækt er að sjá fyrir sér að bókmenntastarfsemi hafi þróast í meðförum hæfileikaríkra höfunda á ritstofum þessara staða, og að þeir hafi smám saman færst frá kristilegri áherslu til ritunar veraldlegra rita vegna þarfa markaðarins. Í þessum ritstofum hafi því þróast afar merkileg handritamenning, sem vert sé að kanna mun betur en hingað til hefur verið gert.

Verkefninu Ritstofur íslenskra miðalda [breytt í Ritmenning íslenskra miðalda við úrvinnslu hugmyndarinnar] eða RÍM er ætlað að svara þessu kalli. Markmiðið er að skapa samstarfsvettvang stofnana og félaga sem hafa þann tilgang að varðveita, rannsaka og miðla menningarsögu og -minjum fjögurra staða á Íslandi þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum. Þessir staðir eru Oddi á Rangárvöllum, Reykholt í Borgarfirði, Staðarhóll í Dölum og Þingeyraklaustur í Húnaþingi. Hugmynd þeirra, sem standa að RÍM, er síðan sú, að Viðeyjar- og Helgafellsklaustur verði einnig hluti þessa vettvangs þegar fram líða stundir.

Sumarið 2015 hófust fornleifarannsóknir á Þingeyrum (forkönnun) og vorið 2018 í Odda og má vænta mikilla tíðinda af báðum stöðunum eftir því sem rannsóknum og uppgreftri miðar fram. Fornleifarannsóknir í Reykholti hófust 1987 og skiluðu ómetanlegum upplýsingum um byggingu staðar og kirkju og athafnasemi ábúenda, ekki síst á tímum Snorra Sturlusonar.“

Hugmyndin er sem sagt að innan ramma verkefnisins sameini fræðimenn á ýmsum sviðum krafta sína til að afla víðtækrar vitneskju um hvernig staðið var að gerð handritanna. Efni þeirra er til rannsókna víða en ræturnar eru á stöðum hér á landi og þær á að rekja með því að beita þeirri tækni sem nú er fyrir hendi við fornleifagröft og rannsóknir á handverkinu sjálfu.