29.9.2023 11:15

Samkeppnisleikrit á þingi

Alvarlegustu aðförina að trúverðugleika samkeppniseftirlitsins er að finna í störfum stofnunarinnar sjálfrar og viðbrögðum hennar við réttmætri gagnrýni.

Eins og rakið var hér í gær komst áfrýjunarnefnd samkeppnismála að þeirri niðurstöðu að samkeppniseftirlitið (SKE) hefði brotið lög með því að gera verktakasamning við matvælaráðuneytið og misbeitt valdi sínu með því að leggja 3,5 m. kr. dagsektir á útgerðarfélagið Brim til að knýja fram afhendingu gagna í samræmi við skyldur í ólögmæta samningnum. Óljóst er hvernig stjórn SKE ætlar að taka á þessu alvarlega máli enda er stjórnin ekki fullmönnuð og því ekki til stórræða.

Í gær (28. september) stóð Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, fyrir sérstakri umræðu á alþingi um samkeppniseftirlitið. Fyrir fram hefði mátt ætla að lögbrot SKE og matvælaráðuneytisins og eftirleik þess bæri hátt í umræðunum. Svo var þó alls ekki.

Samkeppnis

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var eini ræðumaðurinn sem vék að þessu hneyksli innan stjórnsýslunnar sem lýtur eftirlitsvaldi alþingis. Enginn minntist einu sinni á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins tæki málið til skoðunar. Sérstakra funda í henni hefur þó verið krafist af minna tilefni.

Í frumræðu sinni sagði Hanna Katrín áhugavert að bera saman samband og samskipti samkeppnisyfirvalda hér á landi og helstu hagsmunaaðila atvinnulífsins við það sem gengur og gerðist víða í löndum í kringum okkur. Annars staðar á Norðurlöndunum beittu hagsmunasamtök atvinnulífsins sér almennt markvisst gegn samkeppnisbrotum. Hér mætti hins vegar merkja að sum hagsmunasamtök, atvinnulífið og jafnvel fjölmiðlar teldu SKE „atvinnulífinu fjötur um fót“.

Hanna Katrín sagðist hvorki hafa áhyggjur af skoðun viðskiptaráðherra né af því að innan ríkisstjórnarinnar væri einhugur um að grafa undan SKE. Hún taldi þó hættu á að stjórnvöld svæfu á verðinum og létu stýra sér gegn SKE. Þau yrðu hins vegar að tryggja heimilum og fyrirtækjum „heilbrigðan samkeppnismarkað“. „Lítil og meðalstór fyrirtæki, máttarstólpinn í íslensku atvinnulífi, treysta einmitt á skilvirkt og gott eftirlit með samkeppnismörkuðum,“ sagði hún.

Þessi tónn í upphafsræðunni setti svip á umræðurnar þar sem ráðherra málaflokksins og fulltrúar allra þingflokka tóku tvisvar til máls.

Alvarlegustu aðförina að trúverðugleika SKE er að finna í störfum stofnunarinnar sjálfrar og viðbrögðum hennar við réttmætri gagnrýni. Það yrði í samræmi við annað að þess yrði nú krafist að þeim sem sitja í áfrýjunarnefnd samkeppnismála yrði vikið til hliðar fyrir að benda á lögbrotið vegna verktakasamningsins milli SKE og matvælaráðuneytisins.

Ekki kæmi á óvart að forráðamenn SKE túlkuðu þingumræðurnar í gær sem þegjandi blessun þorra þingheims yfir þessum forkastanlegu vinnubrögðum. Hafi það verið tilgangur þingmanns Viðreisnar að skapa þá mynd af afstöðu þingmanna, tókst það.