10.10.2018 10:23

Samhugur á þingi um EES-skýrslugerð

Það er vel við hæfi að gera ítarlega og vandaða úttekt á aðild Íslands að samningnum þegar 25 ár eru liðinn frá gildistöku hans.

Af þingtæknilegum ástæðum reyndist nauðsynlegt að endurflytja ósk þingmanna um að gefa þinginu skýrslu um kosti og galla EES-aðildarinnar. Þar sem málið er mér skylt er umræðunum haldið til haga hér.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var fjarverandi og kom Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra í hans stað og sagði í tilefni af atkvæðagreiðslu um málið þriðjudaginn 9. október:

„Ég vil fyrir hönd utanríkisráðherra þakka hæstv. forseta og hv. þingmönnum fyrir auðsýndan skilning á þeirri staðreynd að umfang skýrslunnar sem beðið er um er öllu meira en almennt tíðkast varðandi skýrslubeiðnir á grundvelli 54. gr. þingskapalaga. Ákveðið var að ráðast í ítarlegri vinnu en gert var ráð fyrir og rúmast innan reglnanna og því skipaði utanríkisráðherra starfshóp 30. ágúst sl. til að vinna skýrsluna. Hópurinn hóf þegar störf og í hann skipaði utanríkisráðherra þrjá valinkunna einstaklinga sem hafa mikla þekkingu á þeim málum, þ.e. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, sem er formaður hópsins, Kristrúnu Heimisdóttur og Bergþóru Halldórsdóttur. Starfshópurinn fær 12 mánuði til skýrslugerðarinnar og hefur þegar farið af stað af miklum krafti. Hann hefur haldið fimm fundi á einum mánuði og hitt um tíu sérfræðinga nú þegar.

Það er vel við hæfi að gera ítarlega og vandaða úttekt á aðild Íslands að samningnum þegar 25 ár eru liðinn frá gildistöku hans.“

390px-European_Economic_Area.svgEES-ríkin - græn eru í EFTA en blá í ESB,

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var meðal þingmanna sem tóku til máls vegna atkvæðagreiðslunnar. Hún sagði m.a.:

„Ég leyfi mér að lýsa yfir mikilli ánægju með það verklag sem hæstv. utanríkisráðherra hefur viðhaft hvað þetta varðar. Það skiptir máli að vandað sé til verka. Ef það þýðir að við þurfum að taka okkur lengri tíma til að fara yfir kosti og galla aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu þá gerum við það. Aðalmálið er að verkefnið, skýrslugerðin, rannsóknin, er í mjög góðum höndum fólks sem þekkir þessi mál út og inn. Ég tel mikilvægt að þingið sýni að það treysti því verkferli sem utanríkisráðherra hefur sett af stað og því fólki sem hefur verið kallað til vinnu; það fólk þarf svigrúm og stuðning af hálfu þingsins til vinnunnar.“

Fyrir okkur sem sitjum við að safna efni í þessa skýrslu er ánægjulegt að sjá að vinnulagið veldur ekki deilum á alþingi. Pétur Gunnarsson, sérfræðingur í EES-málum í utanríkisráðuneytinu, er ritari hópsins.