26.5.2020 9:41

Samfylkingin í vanda

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar undir forystu samfylkingarmannsins Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarráðs, hafði engan áhuga á tillögum utanríkisráðherra.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, hafði frumkvæði að umræðum á alþingi í gær (25. maí) um varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

Snýst þetta um tillögur utanríkisráðherra „um átaksverkefni í ljósi efnahagslegra afleiðinga heimsfaraldurs,“ eins og Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra orðaði það. Sendi hann 19. mars 2020 tillögur til fjármálaráðuneytisins, annars vegar um að íslensk stjórnvöld legðu til 250 millj. kr. á ári á tímabilinu 2021–2025 auk 125 millj. kr. í ár, samtals 1.450 millj. kr., til endurbóta á hafnaraðstöðunni í Helguvík og hins vegar um að framkvæmdum við gistirými á öryggissvæðinu í Keflavík yrði flýtt. Það hefði falið í sér 330 millj. kr. aukningu framlaga til verkefnisins á árunum 2021–2022 en heildarupphæðin hefði verið óbreytt.

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar undir forystu samfylkingarmannsins Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarráðs, hafði engan áhuga á tillögum utanríkisráðherra. Friðjón stóð fyrir bókun meirihluta í bæjarstjórninni þar sem sagði:

„Við teljum óeðlilegt að bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ taki undir „sögusagnir“ um áhuga NATO um að ráðast í miklar framkvæmdir í Helguvík sem nemur mörgum milljörðum. [...] Við höfum lýst yfir áhuga á uppbyggingu í Helguvík i samstarfi við alla áhugasama aðila en viljum ekki taka þátt í pólitísku moldviðri alþingismanna.“

Af bókuninni má ráða að meirihluti hafi ekkert vitað um efni tillögu ráðherra og ekki haft fyrir að kynna sér það heldur bókað gegn einhverjum spuna.

SimagesNeikvæð afstaða meirihlutans í Reykjanesbæ birtist síðan í ólund Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, í umræðunum á alþingi 25. maí sem hann efaðist um að væri tímabærar. Logi sagði:

„Mér vitanlega hefur ekki komið nein formleg beiðni frá NATO eða samstarfslöndum okkar um þessi verkefni sem hafa mest verið til umræðu hérna. En það er full ástæða til að ræða þann spuna sem er kominn í gang.“

Samfylkingin snerist gegn einhverju í bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem hún hafði ekki kynnt sér. Þetta skapar henni vandræði á heimavelli og þá kýs formaður flokksins að saka þingmenn Sjálfstæðisflokksins um „að nota sér hörmulegar efnahagsaðstæður svæðisins í kjölfar Covids til að slá sig til riddara“. Með „gaspri“ hafi þeir skapað óraunhæfar væntingar „fólks sem býr við mjög mikla erfiðleika á þessu svæði“.

Þetta eru ómakleg ummæli vegna þessa máls og furðulegt að forystumenn Samfylkingarinnar skuli reisa málflutning sinn á því að fyrst hefði utanríkisráðherra átt að fá „formlega beiðni“ frá NATO áður en hann lagði tillögur sínar fram.

Þeir sem lesa aðeins um málið í fjölmiðlum og þingtíðindum hljóta að spyrja „formlega beiðni“ um hvað? Íslenskum stjórnvöldum er skylt að sinna viðhaldi á mannvirkjum eins og Helguvík hvað sem NATO segir um það.

Því meira sem um þetta mál er rætt þeim mun betur kemur í ljós að best hefði verið að leggja öll spilin á borðið strax.