26.8.2021 10:24

SA gegn biðlistamenningunni

Ber að fagna því að þeir sem láta sig almenn þjóðfélagsmál varða, utan stjórnmálaflokka, segi skoðun sína á þessum mikilvæga málaflokki.

Samtök atvinnulífsins (SA) efndu miðvikudaginn 25. ágúst til fundar undir fyrirsögninni: Heilbrigðiskerfið á krossgötum og birtu samtímis tillögur sínar um metnaðarfull markmið í heilbrigðismálum. Ber að fagna því að þeir sem láta sig almenn þjóðfélagsmál varða, utan stjórnmálaflokka, segi skoðun sína á þessum mikilvæga málaflokki og leitist við að leiða umræðurnar inn á nýjar brautir.

Þegar litið er til nýrra leiða í heilbrigðismálum frá þeirri ríkisafskipta- og ofstjórnarstefnu sem hér ríkir þarf ekki að leita langt. Annars staðar á Norðurlöndunum hefur ríkisvaldið stofnað til meira samstarfs við einkaaðila í heilbrigðismálum en gerst hefur hér á landi.

Shutterstock_1891209922-3

Miðað við neikvæðnina sem birtist í yfirlýsingum margra lækna á Landspítalanum er starfsánægja þar ekki mikil. Reiðin brýst út í samræmi við eðli kerfisins, í bréfum og opinberum ásökunum í garð ráðherra. Stöðugur skortur á fjármagni og kröfugerð á hendur ráðherrum er einkenni opinberra þjónustustofnana og kröfurnar vaxa eftir því sem stofnanirnar fá meiri einokunarstöðu. Stöðugar fullyrðingar um að spítalinn sé á heljarþröm hefur áhrif á ímynd hans meðal allra, starfsmanna og þeirra sem þangað leita.

Grunnþættir í tillögum SA er að ríkið ákveði og leiði í lög hvaða heilbrigðisþjónustu skuli tryggja og hverja ekki. Í því felst að skapað sé öryggi í stað óvissu. Í skjali SA segir meðal annars:

  • Sjúkratryggingum Íslands verði falið að semja við alla veitendur heilbrigðisþjónustu um framkvæmd hennar með skýrum gæða- og öryggiskröfum þar sem þarfir notenda eru hafðar að leiðarljósi.
  • Lögfest verði viðmiðunarmörk um ásættanlegan biðtíma eftir þjónustu.
  • Sé þjónustuveitanda ekki kleift að veita þjónustu innan tímamarka beri honum að tilkynna notandanum það og bjóða honum þjónustu hjá öðrum án viðbótarkostnaðar fyrir notandann.
  • Viðmið sé að 80% eigi að fá meðferð/aðgerð innan 90 daga ætti að vera100% –jafn réttur notanda.
  • Sett verði á laggirnar gagnvirkt mælaborð að sænskri fyrirmynd, Väntetider i Vården, þar sem finna má upplýsingar um biðtíma hjá öllum veitendum heilbrigðisþjónustu.
  • Gagnagrunnurinn sé tengdur við Heilsuveru þar sem notandanum stendur bæði til boða að skoða biðtíma eftir þjónustu sem hann þarfnast og að bóka tíma hjá þeim veitanda heilbrigðisþjónustu sem honum hugnast.

Þessi grunnviðmið í heilbrigðisþjónustu eru skýr og einföld en framkvæmd þeirra krefst þess að allir sitji við sama borð við ráðstöfun opinbers fjár og neytandinn ráði við hvern hann skiptir. Hindrunin í vegi þess að farið sé inn á þessa braut er hvorki skortur á mannauði, tækni né vilja hjá þeim sem þjónustuna geta boðið heldur hugmyndafræðileg afstaða um að ríkið setji ekki aðeins viðmiðunarreglurnar og skammti skattféð heldur stjórni einnig framkvæmdinni. Þar stendur hnífurinn í kúnni og biðraðamenningin þrífst.