6.7.2022 9:35

Róttæk viðhorf hjá ASÍ og VR

Séu forseti ASÍ og formaður VR tekin á orðinu vilja þau fyrirkomulag þar sem samningsréttur er afnuminn nema hjá opinberum starfsmönnum og launahækkanir sem þeir ná verði með lögum yfirfærðar á alla aðra.

Fyrsta júlí ár hvert skal Fjársýslu ríkisins, samkvæmt lögum, reikna laun þingmanna, ráðherra og embættismanna í samræmi við þróun reglulegra launa hjá hinu opinbera síðasta árið. Þessari skipan var komið á þegar kjararáð var lagt niður árið 2018.

Hækki laun opinberra starfsmanna, annarra en þeirra sem áður féllu undir kjararáð, skal fjársýslan ári síðar færa hækkunina inn í laun gamla kjararáðshópsins. Einfalt og gegnsætt kerfi.

Fréttastofa ríkisútvarpsins birti sunnudaginn 3. júlí viðtal við Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ), vegna málsins. Í inngangi fréttarinnar segir:

„Drífa Snædal, forseti ASÍ, furðar sig á að æðstu ráðamenn fái sjálfkrafa vísitölutengda launahækkun á ári hverju. Hækkunin sé töluvert umfram það sem launafólk semji um í almennum kjarasamningum.“

Orðið „vísitölutengda“ er skáletrað hér því að það kemur ekki fyrir í orðum Drífu á ruv.is heldur er frá fréttamanni. Orðið er jafnan notað til að tengja eitthvað við verðhækkanir, hér er hins vegar um að ræða lögbundna yfirfærslu umsaminna launahækkana á ákveðinn hóp fólks sem er án samningsréttar um laun sín.

CCMA-Cape-Town-labour-law-disputes-South-AfricaVegna stöðu hópsins vekur undrun að Drífa Snædal býsnast yfir því í viðtalinu að þetta fólk án samningaréttar sé „áskrifendur af meiri hækkunum heldur en almennt verkafólk er að fá í gegnum sína kjarasamninga“ og þurfi „ekkert að standa í neinum kjaraviðræðum fyrir það eða átökum“.

Fylgdi hugur máli ætti Drífa að taka upp baráttu fyrir því að ákveðin viðmiðunarlaun séu með lögum látin gilda á öllum launamarkaðnum og þar með þurfi hún eða aðrir „ekkert að standa í neinum kjaraviðræðum“. Þetta er einföld leið sem mundi skapa meiri festu í efnahagslífi þjóðarinnar en núverandi fyrirkomulag.

Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 5. júlí er frétt þar sem segir að lögbundna leiðréttingin á launum gamla kjararáðshópsins sé „vegna samninga sem fela í sér sjálfkrafa vísitölutengda launahækkun á hverju ári“. Með vísan til þessarar margþættu rangfærslu segir svo Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, „vel koma til greina að tengja laun á almennum markaði við vísitölu og fylgja þannig fordæmi æðstu ráðamanna. Hann sér fyrir sér að slík krafa verði tekin til alvarlegrar skoðunar í komandi kjarasamningum“. Þá er haft eftir formanni VR:

„Mér finnst það alveg blasa við. Þetta fyrirkomulag virkar vel hjá embættismönnum ríkisins. Af hverju ætti það sama ekki að gilda á almennum launamarkaði?“

Séu forseti ASÍ og formaður VR tekin á orðinu vilja þau fyrirkomulag þar sem samningsréttur er afnuminn nema hjá opinberum starfsmönnum og launahækkanir sem þeir ná verði með lögum yfirfærðar á alla aðra. Verði þetta stefna VR í komandi kjarasamningum taka þeir skamman tíma.

Viðhorf verkalýðsleiðtoganna er skýrt. Þeir vita um hvað þeir tala þótt fréttamenn kynni viðfangsefnið á rangan hátt.