29.11.2020 9:47

Röng ruv-frétt um réttaróvissu

Hæstiréttur hefur þegar tekið afstöðu til þess álitaefnis sem talið er að kunni að skapa réttaróvissu í frétt ruv.is.

Ríkisútvarpið birti 21. nóvember frétt án þess að vísa til heimildarmanns þar sem sagði sbr. ruv.is:

„Ef yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfestir dóm réttarins í svokölluðu Landsréttarmáli liggur ekki fyrir hvernig farið verður með þá rúmlega 300 dóma sem dæmdir voru af þeim fjórum dómurum sem málið tekur til.“

Fréttin er skrifuð með vísan til þess að í Fréttablaðinu birtist frétt um að yfirdeild MDE mundi birta dóm sinn þriðjudaginn 1. desember.

Blad6-Copy-1-Dómsalur hæstréttar (mynd hæstiréttur).

Sá sem skrifaði fréttina á ruv.is hefði átt að vanda sig meira. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. sem stóð að því að vísa landsréttarmálinu til Strassborgar flutti mál fyrir hæstarétti vegna umferðarlagabrots til að láta reyna á hvort skipun eins dómara í málinu fyrir landsrétti hefði verið í samræmi við lög. Dómur hæstaréttar féll 24. maí 2018. Af honum verður ráðið að hæstiréttur hefur þegar tekið afstöðu til þess álitaefnis sem talið er að kunni að skapa réttaróvissu í frétt ruv.is. Hæstiréttur hafnaði bæði kröfu um ómerkingu málsins eða sýknu. Í reifun málsins á vefsíðu hæstaréttar segir:

„Þegar afstaða væri tekin til afleiðinga þessara annmarka [á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómara] yrði á hinn bóginn að líta til þess að ótímabundin skipun allra dómaranna fimmtán við Landsrétt hefði orðið að veruleika við undirritun skipunarbréfa þeirra 8. júní 2017. Þau hefðu öll fullnægt skilyrðum 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 til að hljóta skipun í embætti og hefðu frá þeim tíma notið þeirrar stöðu samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar að þeim yrði ekki vikið úr embætti nema með dómi. Frá því skipun þeirra hefði tekið gildi hefðu þau samkvæmt sama ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. og 1 mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016, jafnframt borið þá höfuðskyldu að fara í embættisverkum sínum einungis eftir lögum. Þeim hefði einnig verið áskilið með síðastnefndu lagaákvæði sjálfstæði í dómstörfum en jafnframt lagt þar á herðar að leysa þau á eigin ábyrgð og lúta í þeim efnum aldrei boðvaldi annarra. Að þessu virtu taldi Hæstiréttur að ekki væri næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að G hefði, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum. Var aðalkröfu og varakröfu G því hafnað. Þá var dómur Landsréttar staðfestur um sakfellingu G og ákvörðun refsingar hans.“

Þetta verður ekki skýrara og niðurstaða dómara í Strassborg haggar ekki þessum dómi hæstaréttar. Hann skapar skýrt fordæmi að íslenskum rétti hvað sem yfirdeild MDE segir á fullveldisdegi Íslendinga 1. desember 2020.