Rjúfa verður tengsl ríkis og útvarps
Þrátt fyrir hertu lögin halda nýir stjórnendur ríkisútvarpsins áfram að skjóta sér á bakvið „óvissu“ um vilja löggjafans. Lög eru einfaldlega brotin af ásetningi – nú með þeirri skýringu að „óvissa“ ríki um virðisaukaskatt!
Innan ríkisútvarpsins starfar fréttastofa sem lætur ekki sitt eftir liggja séu taldar líkur á lögbrotum hjá ráðherrum, stofnunum eða fyrirtækjum. Hún segir hins vegar engar fréttir af því þegar fyrir liggur niðurstaða ríkisendurskoðunar um að ríkisútvarpið sjálft brjóti lög.
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag (25. nóvember) segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi að aldrei hafi ríkt óvissa um að RÚV (ríkisútvarpinu) bæri að stofna dótturfélag. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í lok síðustu viku sagði að RÚV hefði brotið lög frá því í byrjun árs 2018 með því að stofna ekki dótturfélag um samkeppnisrekstur.
Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV, segir við Fréttablaðið að óvissa hafi ríkt um stofnun dótturfélagsins vegna virðisaukaskattsmála. Hann gefur auk þess til kynna að ríkisendurskoðun hafi ekki staðið við sett tímamörk vegna skýrslu sinnar, hún hafi átt að liggja fyrir í vor.
Skúli Eggert blæs á þessi orð Kára og segir að ekki hafi verið nein óvissa í málinu. „Frá ársbyrjun 2018 hefur það verið alveg skýr lagaskylda að stofna dótturfélag.“ Jafnframt segir hann að ekki hafi verið sérstaklega til umræðu að skýrslan kæmi út í vor. „Fyrstu gögn frá RÚV bárust í janúar 2019 og fyrstu skýrsludrög voru til meðferðar hjá RÚV um mánaðamótin maí-júní. Í kjölfarið kom mikið gagnamagn frá RÚV,“ segir ríkisendurskoðandi.
Skýrsludrögin voru send út til umsagnar í september 2019 og komu síðustu athugasemdir frá RÚV í lok október.
Í skýrslu ríkisendurskoðunar segir:
„Ríkisendurskoðun hefur í samtölum við fulltrúa RÚV, mennta-og menningarmálaráðuneyti og fjölmiðlanefnd spurt um ástæður þessa [að ekki hafi verið stofnað dótturfélag] og fengið þær skýringar að ákveðinnar óvissu gæti um hvort það sé raunverulegur vilji stjórnvalda að þetta ákvæði verði raungert. Ákvæðið gangi lengra en Evrópulöggjöf (tilskipun 2006/111/EB um gagnsæi fjármálatengsla milli aðildarríkjanna og opinberra fyrirtækja) og leiðbeinandi reglur ESA frá 2010 um beitingu ríkisaðstoðarreglna gagnvart rekstri útvarpsþjónustu í almannaþágu (nr. 35/10/COL) krefjast. Þar sé gerð krafa um fullkominn reikningshaldslegan aðskilnað en ekki stofnun dótturfélaga. Ástæða þess að gengið var lengra í íslenskri löggjöf árið 2013 hafi verið tregða fyrrum stjórnenda RÚV til að aðskilja bókhald félagsins og auka gagnsæi í rekstrinum.“
Lesi menn þennan texta tvisvar sjá þeir að þar er um dæmalaus undanbrögð að ræða. Sett eru hert ákvæði í íslensk lög vegna reynslu af tregðu fyrrum stjórnenda ríkisútvarpsins við að hlýða því sem þeim ber að gera. Þrátt fyrir hertu lögin halda nýir stjórnendur ríkisútvarpsins áfram að skjóta sér á bakvið „óvissu“ um vilja löggjafans. Lög eru einfaldlega brotin af ásetningi – nú með þeirri skýringu að „óvissa“ ríki um virðisaukaskatt!
Vegna tengsla ríkis og útvarps hefur þetta verið látið viðgangast. Það er tímabært að rjúfa þessi tengsl til að leggja grunn að heilbrigðum starfsháttum á íslenskum fjölmiðlamarkaði.