3.2.2020 11:02

Ritmenningarverkefnið

Unnið hefur verið að því undanfarna mánuði að hrinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að styrkja rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda (RÍM) í framkvæmd.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (3. febrúar) segir meðal annars:

„Í Morgunblaðinu um helgina var sagt frá því að nú væri í undirbúningi að ráðast í þverfaglega rannsókn á Odda á Rangárvöllum sem ritmenningarstað. Á vegum Oddafélagsins sé unnið að endurreisn höfuðbólsins Odda og rannsóknirnar séu grundvöllur þess.

Fram kemur í fréttinni að ekki hafi fengist fjárveitingar úr fornminjasjóði til að rannsaka hella á Odda sem tengdir hafa verið nafni Sæmundar fróða og taldir eru elstu manngerðu hellar hér á landi. Þar hafa þegar fundist merkar minjar og sjálfsagt er að halda rannsóknum áfram.

Íslendingar þurfa að sýna sögu staða á borð við Odda á Rangárvöllum virðingu með því að stunda þar nauðsynlegar rannsóknir og gera almenningi kleift að kynna sér söguna. Saga Íslands er stórmerkileg, ekki síst sú sem snýr að ritmenningu en þar var Oddi ótvírætt í fremsta flokki á miðöldum, eins og formaður Oddafélagsins, Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, bendir á í fréttapistli á vef félagsins. Hann bindur vonir við að með átaksverkefni ríkisstjórnarinnar um ritmenningu miðalda, sem sett hafi verið á laggirnar í fyrra, fáist það fjármagn sem þurfi til að stunda rannsóknir á Odda sem séu á algjörum byrjunarreit. Óhætt er að taka undir að tímabært er að rannsóknir og uppbygging á þessu merka menningarsetri fái aukið vægi.“

Unnið hefur verið að því undanfarna mánuði að hrinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að styrkja rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda (RÍM) í framkvæmd. Að þeirri vinnu komu fagráð og forstöðumaður Snorrastofu í Reykholti sem annast umsýslu með verkefninu. Samið er við mennta- og menningarmálaráðuneytið um framkvæmdaatriði og er málið á lokastigi í ráðuneytinu.

1105600Frá Odda á Rangárvöllum - Sæmundur á selnum fremst á myndinni, stytta Ásmundar Sveinssonar.

Eins og skýrt var frá á liðnu sumri er ætlunin að auglýsa eftir styrkjum innan ramma verkefnisins. Umgjörðin tekur mið af reynslunni af Reykholtsverkefninu svonefnda sem náði til fornleifarannsókna og rannsókna sem tengjast staðnum og búsetu þar til forna.

Í RÍM-verkefninu er ekki aðeins litið til Odda heldur einnig Þingeyra í Húnaþingi og Staðarhóls í Dölum svo að tveir aðrir staðir séu nefndir. Fyrir nokkrum árum var lagt af stað með Þingeyraverkefnið svonefnda og stofnað til fornleifarannsókna á Þingeyrum. Nú ráðast frekari rannsóknir á Þingeyrum eins og í Odda af því sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins kallar réttilega „átaksverkefni ríkisstjórnarinnar um ritmenningu miðalda“. Til að hafist verði handa undir merki þessa verkefnis í sumar er brýnt að ýta því sem fyrst úr vör.