21.3.2018 11:19

Ríkið á hvorki að reka flugstöð né fríhöfn

Í báðum textunum gætir óþols gagnvart ríkisrekstri á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Engan þarf að undra að svo sé.

Áfram skal haldið við að nefna nokkur atriði úr ályktunum 43. landsfundar sjálfstæðismanna sem rata ekki endilega í almennar umræður um fundinn en skipta máli vegna þess að þar er vikið að nýmælum til frjálsræðis. Í ályktun frá atvinnuveganefnd segir meðal annars:

„Rekstur verslunarmiðstöðvar við alþjóðaflugvöllinn á ekki að vera meðal verkefna hins opinbera, hvorki komu- né brottfararverslun. Fríhöfnin ehf. verði lögð niður og einkaaðilum alfarið eftirlátið að sjá um verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ríkið þarf að setja sér eigendastefnu varðandi Isavia, meðal annars varðandi gjaldtöku og samsetningu á þjónustu við farþega. Hið opinbera á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila.

Afnumin verði lög um opinber hlutafélög (ohf). Fyrirtæki í eigu hins opinbera eiga að starfa undir sömu hlutafélagalögum og fyrirtæki í eigu einkaaðila.“

Í ályktun frá umhverfis- og samgöngunefnd segir meðal annars:

„Keflavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki í örri þróun ferðaþjónustunnar. Tryggja þarf að stærð, gæði og afkastageta hans og flugstöðvarinnar verði ætíð í samræmi við þarfir ferðaþjónustunnar. Ríkið bjóði út heildarrekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.“

Í báðum textunum gætir óþols gagnvart ríkisrekstri á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Engan þarf að undra að svo sé. Hér var í gær vikið að rekstri ríkisins á útvarpi og tímaskekkjunni sem felst í afstöðunni til þess að ríkið stundi miðlun frétta og afþreyingarefnis. Í ljós kemur hvenær tæknin bindur enda á þann ríkisrekstur sem hófst hér árið 1930.

Myndin er úr fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, myndin er af síðunni dutyfree,is

Um þessar mundir er 31 ár liðið frá því að Flugstöð Leifs Eiríkssonar var reist. Að ríkið kæmi að byggingu hennar studdist meðal annars við þau rök að um var að ræða aðskilnað milli hernaðarlegrar og borgaralegrar starfsemi á Keflavíkurflugvelli og ríkið hafði staðið að rekstri fríhafnar í gömlu flugstöðinni á meðan hún var á varnarsvæðinu. Á þessum árum fór utanríkisráðuneytið með yfirstjórn allra mála á Keflavíkurflugvelli.

Allt breyttist þetta á tíunda áratugnum og endanlega eftir brottför varnarliðsins árið 2006. Landhelgisgæsla Íslands fer nú með gæslu á öryggissvæði vallarins í umboði utanríkisráðuneytisins en löggæsla og tollgæsla falla að almennum lögum um þau efni. Engin rök eru fyrir því að Flugstöð Leifs Eiríkssonar sé rekin af opinberu hlutafélagi, Isavia.

Það er prófsteinn á hvort hugur fylgi máli þegar rætt er um að draga úr ríkisumsvifum hvort gerðar séu ráðstafanir til að minnka þessi umsvif á Keflavíkurflugvelli þar sem það er unnt án þess að vega að öryggi á vellinum.

Ríkið á að einbeita sér að því sem fellur undir verksvið þess í flugstöðinni, það er landamæragæslu og tollvörslu. Álagið á þessa grunnþætti í öryggisgæslunni hefur stóraukist. Tækifærin til greiningarvinnu í tengslum við ferðir manna til og frá landinu um Keflavíkurflugvöll eru ekki nýtt sem skyldi, öflugri leið til að sporna við skipulegri glæpastarfsemi af öllu tagi í landinu er þó ekki fyrir hendi.