24.8.2017 10:32

Rangar ákvarðanir án ábyrgðar í Reykjavíkurborg

Þar sýnist meginmarkmiðið að skapa víggirðingu umhverfis æðsta embættismanninn, borgarstjórann, og láta eins og unnt sé að reka fleyg á milli vandræðanna og ábyrgðar hans.

Við nánari athugun borgaryfirvalda kom í ljós að stórfyrirtækið sem auglýsti grand opening á risakilti á Lækjartorgi hafði ekki fengið öll leyfin sem nauðsynleg eru til slíkrar auglýsingar og var skiltið fjarlægt af torginu í gær. Þegar brugðið er ljósi á málið má segja að það sé í ætt við önnur vandræðamál í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar undanfarið. Þar sýnist meginmarkmiðið að skapa víggirðingu umhverfis æðsta embættismanninn, borgarstjórann, og láta eins og unnt sé að reka fleyg á milli vandræðanna og ábyrgðar hans.

Í Morgunblaðinu í gær birtist frétt þar sem rætt var við Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg, sem sagði að auglýsandinn, verslunin H&M, væri með „afnotaleyfi“ fyrir auglýsingu á borgarlandi Reykjavíkur. Jón Halldór sagði:

„Það var gefið út afnotaleyfi fyrir þessu [H&M]. Leyfin eru til þess fallin að það svæði sem notað er fyrir gleði, kvikmyndatöku og tónleika sé innan einhverra marka og trufli aðra sem minnst. Þetta er náttúrlega auglýsing og það er hægt að hafa einhverja skoðun á því. Sumar auglýsingar eru skemmtilegar, aðrar minna.“

Hann bætti við að væri auglýsing sett upp án tilskilinna leyfa fjarlægði Reykjavíkurborg slíka auglýsingu á kostnað eigandans. „Stundum vitum við hins vegar bara ekkert hver hefur sett auglýsinguna upp,“ segir Jón Halldór og hlær við að sögn blaðamannsins sem lagði spurningar sínar fyrir Jón Halldór vegna orðróms um að H&M hefði ekki leyfi til þessarar auglýsingar. Þá segir í fréttinni:

„Spurður um veggmyndina [af sjómanninum] á Sjávarútvegshúsinu [Skúlagötu 4] sem fjarlægð var nýlega segir Jón Halldór að leyfi fyrir þeirri mynd hafi einungis verið tímabundið og það hafi runnið sitt skeið. „Það var bara tímabundið leyfi á sínum tíma. Þegar um er að ræða slíka veggmynd er sótt um leyfi hjá byggingarfulltrúa,“ segir Jón Halldór og bætir við að þá þurfi að hafa rétt meðborgara í huga og það þurfi að fá leyfi hjá þeim. „Þetta snýst allt um að fólk geti verið sátt saman,“ segir Jón Halldór að lokum.“

Af þessu svari Jóns Halldórs má ráða að Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar, hafi ráðið örlögum myndarinnar á gafli Skúlagötu 4. Guðrún Gísladóttir, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sagði í skriflegu svari til fréttastofu ríkisútvarpsins þriðjudaginn 22. ágúst að hússtjórn Sjávarútvegshússins hefði látið mála yfir mynd á gafli hússins og að byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar hefði farið fram á það.

Í svari Guðrúnar, sem er formaður hússtjórnarinnar, til fréttastofunnar segir að komið hafi verið að viðhaldi á húsgaflinum með tilheyrandi viðgerð og málningarvinnu. Þá hafi málningin sem notuð var til að mála myndina ekki verið nógu góð til að standa þar til langframa. Þegar byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar hafi farið fram á að málað yrði yfir myndina hafi verið orðið við því.

Nikulás Úlfar Másson byggingarfulltrúi segir þetta rangt ef marka má ruv.is miðvikudaginn 23. ágúst. Þvert á móti hafi hann tekið skýrt fram í tölvupóstsamskiptum við Hjörleif Guttormsson alþingismann sem gerði athugasemd vegna myndarinnar á húsgaflinum að hann myndi ekki fara fram á að málað yrði yfir myndina. Segir hann í tölvubréfi, sem hann sendi til Hjörleifs að ekki hafi verið „gefin loforð um að verkin yrðu fjarlægð að tilstuðlan embættis byggingarfulltrúa, heldur var það sett í hendur eigenda hússins og framkvæmdaaðila að ákvarða um það hvort og þá hvenær yrði málað yfir umrædda mynd.“ Tölvubréfið sendi Nikulás Úlfar 30. nóvember 2016. Ef til vill á að skilja frásögn byggingarfulltrúans á þann veg að hússtjórn Skúlagötu 4 hafi átt að vera kunnugt um svar hans til Hjörleifs.

Í fréttum ríkisútvarpsins vegna þess að húsgaflinn var málaður hvítur var vitnað í tölvubréf Hjörleifs Guttormssonar til embættismanna Reykjavíkurborgar. Kvaðst RÚV hafa bréfin undir höndum og vitnaði orðrétt í Hjörleif.

Í grein í Morgunblaðinu mánudaginn 21. ágúst gerir Hjörleifur þennan þátt málsins að umtalsefni með þessum orðum:

„Hlutur fréttastofu Ríkisútvarpsins er í þessu samhengi afar sérstakur. Þar á bæ veita menn móttöku tölvupóstum úr borgarkerfinu frá fólki sem er greinilega mikið í mun að beina athygli frá eigin samþykktum og gjörðum og benda þess í stað á sökudólg úti í bæ. Settur er saman hrærigrautur úr þessum feng og birtur á fréttavef RÚV. Mann tekur sárt að sjá „útvarp allra landsmanna“ láta misnota sig með þessum hætti. Alvarlegri eru þó þeir brestir sem endurspeglast nú um stundir í stjórnkerfi Reykjavíkur á mörgum sviðum og veggjakrot í kjölfar handauppréttinga í borgarstjórninni er aðeins örlítið dæmi um.“

Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 24. ágúst staðfestir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, að hann hafi látið fréttastofu ríkisútvarpsins tölvubréf Hjörleifs í té að ósk fréttamanns. Upplýsingastjórinn segir:

„Samkvæmt áliti lögmanns hjá embætti borgarlögmanns falla þessir tölvupóstar undir ákvæði upplýsingalaganna og því rétt að afhenda þá ef um er beðið þar sem þeir innihalda engar upplýsingar sem stangast á við ákvæði laganna. Þannig mat ég málið þegar beiðni fréttamanns Ríkisútvarpsins var send. Í fréttum af málinu hafði verið vísað til bréfaskipta á milli aðila. Ekki var um bréfasamskipti að ræða heldur tölvupósta. Það var því rétt að afhenda póstana þegar formleg beiðni kom um það frá fréttamanninum.“

Upplýsingastjórinn segir við blaðamanninn: „Já, ef þú sendir borginni erindi sem þetta máttu eiga von á því að það geti birst opinberlega.“

Morgunblaðið snýr sér til Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, sem segir að við opna og gagnsæja stjórnsýslu þurfi að huga að sjónarmiðum um meðalhóf. Hversu miklar upplýsingar þurfi til dæmis að veita við afgreiðslu mála. „Var í þessu tilviki hægt að komast að sömu niðurstöðu með vægari aðgerðum? Til dæmis með því að upplýsa ekki hvaða einstaklingur kom með upphaflega ábendingu? Það er alltaf verið að óska eftir opinni og gagnsærri stjórnsýslu en því geta fylgt fylgikvillar sem þessi.“

Vissulega eru þetta réttmæt álitamál sem forstjóri persónuverndar nefnir. Gagnrýni Hjörleifs snýst í sjálfu sér ekki um að bréf hans séu birt heldur aðferðina og tilganginn með birtingunni og hlut fréttastofunnar með þátttöku í tilraunum til að láta líta þannig út að Hjörleifur hafi ákveðið að gaflinn skyldi málaður og sjómannsmyndin afmáð.

Hvað sem tilraunum Reykjavíkurborgar líður til firra sig ábyrgð í gaflmálinu tekst það ekki og þar eins og endranær hvílir endanleg ábyrgð á æðsta embættismanninum, Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Birting bréfanna var fyrst og síðast tilraun til að beina athygli frá ráðhúsinu í þessu máli.

Hvað um samskipti borgaryfirvalda við H&M?

Síðdegis miðvikudaginn 23. ágúst sendi Reykjavíkurborg frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Mistök voru gerð milli skrifstofa hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar þegar veitt var leyfi fyrir H&M auglýsingu á Lækjargötu. Málið hefði þurft frekari umfjöllun þar sem um álitaefni er að ræða. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum. Hvorki er við birtingaraðila né H&M að sakast í þessu máli. Skiltið verður fjarlægt af Lækjartorgi í dag. Reykjavíkurborg hefur átt mjög gott samstarf við H&M eftir að mistökin voru ljós og vinnur H&M nú að því að finna nýja staðsetningu fyrir auglýsinguna.

Unnið er að endurskoðun á ferlum og bættu verklagi í samræmi við reglur um afnot af borgarlandi vegna skilta og útstillinga, m.a. með innleiðingu á öflugu leyfiskerfi.“

Þarna þarf að lesa á milli lína – ekki er öll sagan sögð. Jón Halldór Jónasson upplýsingafulltrúi hafði sagt að öll leyfi hefðu verið veitt. Hver blekkti hann innan borgarkerfisins? Hvaða mistök voru gerð „milli“ skrifstofa? Hverjir fleiri þurftu að fjalla um málið? Hver voru álitaefnin?

Að lokum er klykkt út með klassísku svari þegar allt er komið í óefni, að einhverja „ferla“ þurfi að skoða. Þetta var einnig sagt eftir að vísvitandi hafði verið þagað yfir mengunarslysinu í Faxaskjóli. Þá var sagt að endurskoða þyrfti „verkferla“.

Eftir allt sem á undan er gengið í samskiptum við borgarstjórn Reykjavíkur er undarlegt að fjölmiðlamenn láti sér þetta duga sem svar um ákvarðanir í borgarkerfinu. „Ferlar“ lýsa röð ákvarðana. Halda einhverjir að þær séu teknar hjá Reykjavíkurborg án þess að starfsmenn eða kjörnir fulltrúar eigi hlut að máli? Auðvitað er málum ekki þannig háttað. Það er efni ákvarðananna sem er rangt en ekki aðferðin við töku þeirra – þær eru allar að lokum á ábyrgð borgarstjóra.