2.5.2019 9:44

Ragnhildi Kolka svarað um O3

Í fyrsta lagi er ekki um neina kúgun að ræða í þessu máli gagnvart íslenskum stjórnvöldum eða Íslendingum. Nauðsynlegt er að hafa það á hreinu.

Ragnhildur Kolka, vinur minn á Facebook, spyr á síðu sinni þar:

„Hvernig gengur þetta upp?

„Orkupakki 3 breytir engu fyrir Íslendinga“ en „Ef við samþykkjum hann ekki setur það EES samninginn í hættu.“

Er þetta ekki skilgreining á kúgun?“

Auðvelt er að svara þessum spurningum.

Í fyrsta lagi er ekki um neina kúgun að ræða í þessu máli gagnvart íslenskum stjórnvöldum eða Íslendingum. Nauðsynlegt er að hafa það á hreinu. Íslensk stjórnvöld áttu frjálsa aðild að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 5. maí 2017 um að fella bæri þriðja orkupakkann (O3) inn í EES-samninginn, gera breytingu á IV. viðauka samningsins um orku sem hefur verið hluti hans frá upphafi. Aðild íslenskra stjórnvalda að þessari ákvörðun var reist á athugun þingnefnda frá 2014 og tók mið af því að í maí 2015 var hluti af O3 lögfestur með flýtimeðferð vegna mála á alþingi sem snertu flutningakerfisáætlanir fyrir raforku.

Í öðru lagi sýnir lagasetningin frá 2015 sem reist er á O3 að það er rangt að fullyrða að O3 breyti engu fyrir Íslendinga. Fyrir utan þessa lagabreytingu er ætlunin að breyta lögum varðandi Orkustofnun til að auka sjálfstæði hennar sem eftirlitsaðila í þágu neytenda.

Í þriðja lagi setur það EES-samninginn í hættu fyrir okkur Íslendinga að standa ekki við ákvörðunina sem var tekin 5. maí með samþykki íslenskra stjórnvalda.

1-KZ1__O3iaYriKLrre9ZUgAAðilar að evrópska efnahagssvæðinu (EES) á ensku European Economic Area (EEA) eru öll ESB-ríkin, sameiginlegur fáni þeirra en lengst til vinstri, þá koma EFTA-ríkin Ísland, Liechtenstein og Noregur. Saman mynda ríkin um 500 milljón manna markað. Margt bendir til að meðal O3-andstæðinga á Íslandi séu þeir sem vilji Ísland út úr þessi samstarfi án þess að þeir hafi nokkurn annan raunhæfan kost í huga.

Það hefur aldrei gerst í 25 ára sögu EES-samstarfsins að ríki standi ekki við skuldbindingu sem það hefur samþykkt á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Að taka áhættu í þá veru vegna O3 er í senn ónauðsynlegt vegna íslenskra hagsmuna og óskynsamlegt frá pólitískum sjónarhóli vilji menn á annað borð aðild að EES-samstarfinu.

Þingmenn hafa fengið ítarlega og málefnalega kynningu á O3. Hún leiddi m. a. til þess að efasemdarmenn innan þingflokks sjálfstæðismanna ákváðu að styðja innleiðingu á O3. Nokkrir þeirra hafa gert grein fyrir afstöðu sinni í greinum í fjölmiðlum. Að draga þá ályktun af þeim að þingmennirnir hafi verið beittir þvingunum er fráleitt.

Miðvikudaginn 1. maí birti Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, langa grein vegna O3 á vefsíðunni Kjarnanum. Undir lok hennar segir:

„Ég tel mikilvægt að sem flestir sjái í gegnum málatilbúnað og rangfærslur helstu talsmanna gegn 3. orkupakkanum. Orkuauðlindir okkar eru ekki í hættu. Þær geta orðið það, en þá af öðrum, nú óþekktum, orsökum. Afgreiðsla ríkisstjórnarinnar jafngildir ekki útsölutilboði á raforku, heldur ábyrgri afgreiðslu EES-gerðar sem varðar okkur miklu um eðlileg samskipti við umheiminn. Hér á landi er ekki meirihlutavilji fyrir uppsögn EES-samningsins eða umsókn um aðild að ESB.“