11.8.2018 11:21

Ráðhússtjórnsýsla í rúst

Á tveimur mánuðum hafa fimm áfellisdómar verið felldir vegna þessarar stjórnsýslu.

Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara Reykjavíkur hefur vaxið mikið og hratt á undanförnum árum. Kostnaður við hana var 157 milljónir fyrir níu árum en yfir 800 milljónir á síðasta ári.

69873986Ráðhús Reykjavíkur.

Skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara  hefur yfirumsjón með stjórnsýslu, miðlægri stoðþjónustu og samhæfingu innan stjórnsýslu borgarinnar í samstarfi við borgarritara. Á tveimur mánuðum hafa fimm áfellisdómar verið felldir vegna þessarar stjórnsýslu:

5. júní 2018:

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmir  Reykjavíkurborg til að greiða starfsmanni Ráðhúss Reykjavíkur skaðabætur vegna slæmrar framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

2. júlí 2018:

Kærunefnd jafnréttismála telur Reykjavíkurborg hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu borgarlögmanns á árinu 2017.

11. júlí 2018:

Umboðsmaður alþingis segir að við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg skorti aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, eins og þau verði túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindareglna.

15. júlí 2018:

Mannréttinda- og lýðræðisráð borgarinnar samþykkir að öll salerni starfsfólks í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar skuli gerð ókyngreind frá og með haustinu í andstöðu við 22. gr. reglugerðar um húsnæði vinnustaða frá árinu 1995.

31. júlí 2018:

Umboðsmaður borgarbúa telur að betur hafi mátt huga að undirbúningi ákvörðunar menningar- og ferðamálaráðs um útleigu á Iðnó. Ákvörðun ráðsins um útleigu á Iðnó var „ekki fyllilega í samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti“ að mati umboðsmannsins.

Eins og sjá má gerðist sjálfur umsjónarmaður stjórnsýslunnar brotlegur við lög samkvæmt dóminum frá 5. júní. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir á FB síðu sinni föstudaginn 10. ágúst:

„Stjórnsýsla Reykjavíkur er í molum. Stjórnsýsla Reykjavíkur rannsakar sjálfa sig og tekur ekki mark á dómstólum!!! Nýverið felldi Héraðsdómur Reykjavíkur dóm í eineltismáli innan ráðhússins. Sá sem lagður var í einelti vann fullan sigur, borgin ákvað að fara ekki með málið fyrir Landsrétt og þolanda dæmdar bætur. Undir venjulegum kringumstæðum væru þetta málalok. Svo er ekki í ráðhúsinu. Því nú hefur borgarritari virkjað eineltisteymi Skóla- og frístundasviðs til að „rannsaka málið“. Samkvæmt mínum upplýsingum var það gert að beiðni undirmanns hans – einmitt þess sem lagði þolandann í einelti sem starfar sem skrifstofustjóri borgarstjóra. Þolandanum/fjármálastjóranum er nú gert, þvert gegn vilja sínum, að mæta á fundi vegna þessa. Skrifstofa borgarstjóra heldur s.s. áfram með málið þó búið sé að dæma í því með afdráttarlausum orðum dómara um framkomu skrifstofustjóra í garð undirmanns.“

Sé þetta rétt hjá borgarfulltrúanum er stjórnsýslan í ráðhúsinu ekki í molum heldur í rúst.