25.1.2018 11:03

Ráðherravaldir dómarar settir í annan flokk

Píratar segjast í öðru orðinu vilja láta hrikta í stoðum kerfisins en í hinu birtast þeir sem örgustu kerfiskarlar.

Deilurnar um aðferð við að skipa dómara tóku á sig nýja mynd á hádegisfundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík (HR) miðvikudaginn 24. febrúar þegar Jakob R. Möller hrl. taldi að ekki hefðu hæfustu lögfræðingar verið valdir til dómarastarfa fyrr en eftir 2010 og þá væntanlega einkum eftir að honum var treyst til að sitja í dómnefnd um hæfi manna í dómarastörf. Jakob R. sótti um að verða hæstaréttardómari árið 2003 og fékk ekki.  

Í frásögn á mbl.is 24. janúar af þessum fundi í HR segir: 

„Jakob sagði dómsmálaráðherra til þessa því miður ekki hafa sýnt að þeim sé treystandi til þess að fara með skipunarvaldið þegar kæmi að dómaraembættum. [...] 

Jakob fór ítarlega yfir forsögu skipunar dómara og hvernig staðið hefði verið að málum hér áður fyrr og til þessa dags. Dómarar hefðu iðulega verið skipaðir eftir flokkslínum hér áður á forsendum þeirra sem verið hefðu við völd hverju sinni. Það væru ekki margir áratugir síðan farið hafi verið að gera þá kröfu að hæfasti umsækjandinn yrði valinn.“ 

Talsmenn þess að dómarar eða fulltrúar þeirra gefi dómsmálaráðherra fyrirmæli um hverja hann skuli skipa í dómaraembætti hefðu átt að velja annan málsvara en Jakob R. Möller. Framkoma hans gagnvart settum dómsmálaráðherra sannaði að núverandi kerfi við skipan dómara er átakaferli án opinna samskiptaleiða yfir víglínur. Ummæli hans um hæfi og hæfni dómara sem skipaðir voru fyrir 2010 eru til þess fallin að grafa undan trú á dómstólum og móðgandi fyrir þá sem sitja í dómaraembættum. Dómarafélag Íslands hefur látið í sér heyra af minna tilefni. 

Jón Þór Ólafsson, fulltrúi Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis, hefur gert samkomulag við Helgu Völu Helgadóttur, Samfylkingarþingmann og nefndarformann, um að þæfa landsréttarmálið í nefndinni í von um að fá þingmenn vinstri-grænna á sitt band til að hrekja Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra úr embætti fyrir að leggja fyrir nefndina tillögu um aðra dómara en dómnefnd vildi. Þingnefndin og alþingi samþykkti tillögu ráðherrans. Forseti Íslands tók tillit til óska Jóns Þórs þegar hann lét kanna hvort alþingi hefði ekki staðið rétt að málum áður en hann skrifaði undir skipunarbréfin. 

Samt heldur Jón Þór áfram þrefi sínu og nú með stuðningi Helgu Völu og blessun þeirra sem tala eins og Jakob R. Möller: að afskiptum dómsmálaráðherra af skipan dómara megi helst líkja við aðför að réttarríkinu. 

Píratar segjast í öðru orðinu vilja láta hrikta í stoðum kerfisins en í hinu birtast þeir sem örgustu kerfiskarlar og má þar meðal annars nefna ræðu sem Björn Leví Gunnarsson Pírati flutti á alþingi miðvikudaginn 24. janúar – enn eina til að hallmæla dómsmálaráðherra. Hann sagði meðal annars: 

„Ráðherra er bara ósammála öllum; dómi, álitum og ábendingum sem segja að hún hafi tekið ranga ákvörðun. Þetta er afleiðing þeirrar tilhneigingar að vísa í öllu til valds ráðherra, sem ég hef á tilfinningunni að hafi verið gegnumgangandi í lagasetningu á undanförnum árum. Það býr einfaldlega til möguleikann á geðþóttaákvörðunum, möguleikann á einræði.“ 

Í fyrsta lagi: Hver segir að ráðherra hafi tekið „ranga ákvörðun“? Snýst ekki málið um að ráherrann hafi ekki rannsakað málið nægilega vel? Í öðru lagi: Fram hefur komið að ráðherranum var allt ljóst sem fram kom um rannsóknarskylduna, lögbundin tímamörk um að leggja mál fyrir þingnefnd settu ráðherra skorður. Þingnefndin hafði tök á að rannsaka málið frekar án lögbundinna tímamarka. Í þriðja lagi: Að segja vísi að einræði að ráðherra telji sig ekki bundinn við ráð embættismanna um matskennd atriði er þversögn. Málum er vísað til „valds ráðherra“ af því að hann má kalla til pólitískrar ábyrgðar í lýðræðislandi en embættismenn starfa í skjóli þeirrar ábyrgðar.