25.6.2021 11:28

Pírati fyrir hælisleitendur

Vegna þess hvers eðlis útlendingamál eru í huga margra líta þeir á meðferð þeirra sérstökum augum. Þar gengur nú lengst Magnús D. Norðdahl lögmaður.

Vegna COVID-19-faraldursins myndaðist grátt svæði við framkvæmd útlendingalaga. Útlendingastofnun túlkar gildandi reglur á annan hátt en kærunefnd útlendingamála.

Af túlkun stofnunarinnar leiddi að hælisleitendur sem var hafnað landvist en neituðu að gangast undir COVID-próf fengu ekki félagslega aðstoð, húsaskjól og mat. Án COVID-prófs má ekki flytja hælisleitendur aftur til Grikklands. Ekki er lagaheimild til að neyða neinn til að gangast undir slíkt próf hér á landi. Útlendingastofnun taldi hins vegar að ákvörðun um brottvísun gilti þótt mennirnir væru enn á landinu og þeir yrðu að sæta afleiðingum þess.

Útlendingastofnun taldi ákvörðun sína um að svipta mennina þjónustu ekki stjórnvaldsákvörðun. Hún væri því ekki kæranleg til kærunefndar útlendingamála. Þessu var nefndin ekki sammála.

Fr_20190621_115392Í úrskurði kærunefndarinnar segir að stjórnvöld geti aðeins tekið íþyngjandi ákvörðun um skerðingu réttinda borgaranna hafi þau til þess skýra og ótvíræða heimild. Útlendingastofnun skorti heimild lögum til að skjóta stoðum undir ákvörðun sína. Ekki væri nógu skýrt í reglugerðinni hvenær og við hvaða skilyrði þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd félli niður.

Eftir úrskurð kærunefndarinnar ákvað útlendingastofnun að hælisleitendurnir fengju aftur fæðis- og framfærslufé. Hitt er óleyst að binda enda á ólöglega dvöl hælisleitendanna hér þrátt fyrir að þeir þverskallist við að fara í COVID-próf. Að óbreyttum reglum hér og í Grikklandi dveljast þeir áfram hér á kostnað skattgreiðenda.

Hvað eftir annað gerist það að ágreiningur rís um túlkun laga og reglna. Til þess eru dómstólar og kærunefndir að leysa úr ágreiningi um slíkt. Eigi ólík túlkun dómara á lögum að verða til ráðherraskipta yrðu þau mjög tíð.

Vegna þess hvers eðlis útlendingamál eru í huga margra líta þeir á meðferð þeirra sérstökum augum. Þar gengur nú lengst Magnús D. Norðdahl lögmaður. Hann nýtur sérstakrar þjónustu hjá kærunefnd útlendingamála við birtingu úrskurða hennar. Formaður nefndarinnar túlkar birtingarskyldu nefndarinnar á úrskurðum sínum á þann veg að dugi að senda þá til sérvalins hóps lögmanna og Rauða krossins.

Magnús D. Norðdahl skipar efsta sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi. Hann notar aðstöðu sína sem lögmaður hælisleitenda hvað eftir annað til þungra árása á útlendingastofnun og starfsmenn hennar fyrir utan að krefjast afsagnar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Afsagnarkrafan er kækur hjá Pírötum og árásir á embættismenn ráðast af flokkshagsmunum hverju sinni. Þá kröfu verður hins vegar að gera til fjölmiðla nú nokkrum vikum fyrir kosningar að þeir láti lesendur, áhorfendur eða heyrendur vita þegar þeir ræða við frambjóðendur um hápólitísk mál eins og útlendingamál.

Magnús D. Norðdahl gefur upp boltann á þann veg að óhjákvæmilegt er að útlendingamál verði rædd á pólitískum vettvangi fram að kosningum svo að kjósendur geti með atkvæði sínu lagt sitt af mörkum til stefnumörkunar.