Píratar og Viðreisn þétta raðirnar
Arndís Anna grípur til óheiðarleika til að þagga niður í þeim sem ræða útlendingamál á öðrum forsendum en hún kýs að gera.
Í upphafi vikunnar lagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra
enn á ný fram frumvarp um breytingar á landamæravörslu sem snúa að Schengen-aðildinni.
Ráðgert er að í nóvember 2023 taki svonefnt ETIAS-skráningarkerfi (European
Travel Information and Authorisation System) gildi gagnvart þeim sem vilja
ferðast til Evrópu án þess að þurfa vegabréfsáritun. Sá sem skráir sig inn í
kerfið greiðir fyrir skráninguna og gildir hún í 3 ár. Í Bandaríkjunum er
sambærilegt kerfi þekkt undir skammstöfuninni ESTA.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNBHCR) vinnur gott starf. Grafið er undan tiltrú til alþjóðlega flóttamannakerfisins með markvissri misnotkun flóttamannareglna af skipulögðum glæpahópum.
Í umræðum um frumvarpið var píratinn Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir full tortryggni. Allur málflutningur hennar gengur út á að fordæma landamæravörslu og gera allt tortryggilegt sem dómsmálaráðherra segir og snertir raunverulega stöðu útlendingamála hér og annars staðar.
Í umræðum um frumvarpið sagði Jón Gunnarsson meðal annars:
„Í dag er fólk að koma í hópum frá Venesúela. Hlutfallslega margir koma til Íslands. Þeir sækja allir um vernd og eru frá þriðja ríki. Við erum að veita þessu fólki svokallaða viðbótarvernd og göngum miklu lengra en nokkur önnur Evrópuþjóð því viðbótarvernd er vernd til fjögurra ára með miklu meiri félagslegum réttindum en nokkur önnur þjóð í Evrópu veitir. Meiri en Spánn sem veitir vernd á grundvelli mannúðarmála til eins árs með miklu takmarkaðri réttindum.“
Arndís Anna sagði ráðherrann fara með rangt mál. Sló hún því fram án rökstuðnings.
Í ræðu á þingi 11. október sakaði hún ráðherrann um að gefa til kynna að fólk sem hingað kæmi væri „upp til hópa óheiðarlegt, ekki hingað komið til að vinna og vera þátttakendur í samfélaginu og jafnvel hættulegt“. Þá sagði hún: „Þetta er alvarlegt mál upp á líf og dauða fjölskyldna sem eru venjulegt fólk eins og við.“
Ekkert í ræðum dómsmálaráðherra er réttmætt að túlka á þennan hátt.
Arndís Anna grípur til óheiðarleika til að þagga niður í þeim sem ræða útlendingamál á öðrum forsendum en hún kýs að gera. Veruleikinn er einfaldlega mun kaldari og grimmari en hún vill vera láta. Hann breytist ekki við að vilja ekki sjá það.
Viðbrögð við staðreyndum um þessi mál í vikunni eru öðrum þræði á þann veg að ekki megi ræða þau nema á pírata-forsendum.
Á þingi 11. október tók aðeins viðreisnarþingmaðurinn Sigmar Guðmundsson undir með píratanum í útlendingamálunum. Hann fór í fótspor Arndísar Önnu þegar hann sakaði dómsmálaráðherra fara með rangt mál með ummælum um að misnotkun á flóttamannakerfi Sameinuðu þjóðanna græfi undan gildi þess.
Það ber vott um eindreginn vilja til að drepa umræðum á dreif að hér skuli standa upp þingmaður 11. október 2022 og segja:
„Ef verið er að misnota kerfið og flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna þá þarf að segja okkur skýrt hverjir eru að gera það, hvernig það er gert og hvert umfangið er. Hingað til hafa menn forðast þá umræðu.“
Í hvaða veröld lifir þingmaðurinn?