Penninn aftur til haftatímans
Þótt Pennanum takist vegna afskiptaleysis samkeppnisyfirvalda að drepa Uglu útgáfu stöðva hvorki Penninn né yfirvöldin tækniþróunina heldur verða sér rækilega til skammar.
Á sínum tíma skrifaði Jakob F. Ásgeirsson bókina Þjóð í hafti sem lýsir, eins og nafnið gefur til kynna, haftatímanum hér á landi frá 1930 og í raun fram til þess tíma þegar Ísland gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES) fyrir 26 árum.
Við gildistöku EES-samningsins gilti á Íslandi samkeppnislöggjöf frá árinu 1978. Þróun verðlags- og samkeppnismála á Íslandi hafði verið allt önnur en í öðrum ríkjum fyrir gildistöku samningsins. Opinbert verðlagseftirlit hafði verið við lýði frá árinu 1939 með beinum eða óbeinum afskiptum af verðlagningu í stað þess að lögð væri áhersla á að örva samkeppni.
Áherslan í starfi verðlagsyfirvalda allt til ársins 1990 fólst öðru fremur í verðlagsaðhaldi. Var þetta meðal annars afleiðing af takmörkuðu vöruframboði hér á landi vegna innflutningshafta sem giltu allt til ársins 1960. Verðlagi var þó áfram stýrt með handafli. Tilkoma samkeppnislaga árið 1978 varð ekki til þess að kollvarpa þeirri stefnu og litlar breytingar urðu á framkvæmdinni.
Það var því ekki fyrr en með samkeppnislögum árið 1993 í tengslum við aðild Íslands að EES sem samkeppnisreglur komu í stað verðlagsafskipta. Nýju reglurnar voru nær alfarið reistar á samkeppnisreglum EES-samningsins og fólu þær í sér bann við samkeppnishamlandi samningum og samskiptum milli fyrirtækja og samkeppnishamlandi háttsemi markaðsráðandi fyrirtækja auk heimilda til að koma í veg fyrir samruna sem gætu skaðað samkeppni.
Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Jakob F. Ásgeirsson frá aðförum Pennans gegn bókaforlagi hans, Uglu. Allar nýjar bækur Uglu hafa verið teknar úr verslunum Pennans vegna þess að boðið var upp á bækurnar í hljóðbókastreymi Storytel.
Penninn rekur 16 bókaverslanir um land allt og situr til dæmis einn að slíkum rekstri í Leifsstöð. „Þessi yfirþyrmandi markaðshlutdeild þýðir að 90-95% af sölu nýrra bóka Uglu fer jafnan fram í verslunum Pennans Eymundsson,“ segir Jakob og við blasi, komist Penninn upp með þetta „að Ugla útgáfa neyðist til að hætta starfsemi í haust“.
Hann lýkur grein sinni á þessum orðum:
„Núverandi stjórnendur Pennans hafa sýnt það í verki að þeim er ekki treystandi til að stýra markaðsráðandi fyrirtæki. Það hlýtur því að koma alvarlega til greina hjá Samkeppniseftirlitinu að nýta valdheimildir sínar og brjóta upp einokunarveldi Pennans á íslenskum bókamarkaði.
Heilbrigð samkeppni í fákeppnislandi þrífst aðeins ef reglur eru skýrar og eftirlit skilvirkt.“
Nú á tímum stafrænna samskipta sem stóraukast vegna COVID-19-faraldursins, þar á meðal sala hljóðbóka, er það aðeins til marks um hugsunarhátt haftatímans að ætla að stöðva framfarir í krafti markaðseinokunar. Þótt Pennanum takist vegna afskiptaleysis samkeppnisyfirvalda að drepa Uglu útgáfu stöðva hvorki Penninn né yfirvöldin tækniþróunina heldur verða sér rækilega til skammar.