6.11.2023 9:38

Óvissuástandið á Reykjanesi

Þessar rannsóknir og gerð rýmingaráætlana að þeim loknum í Rangárvallasýslu rifjast upp núna þegar rætt er um hugsanlegar afleiðingar þriðja gossins á Reykjanesi.

Fyrir um 20 árum taldi almannavarnanefnd í Rangárvallasýslu ástæðu til að rannsaka hvað kynni að gerast, ef gos yrði í vesturhluta Mýrdalsjökuls. Vísbendingar væru um að líkur á slíku gosi hefðu aukist og einnig um að flóð vegna þess kynni að valda tjóni á stóru svæði. Tilmæli um rannsókn á þessu voru send til dóms- og kirkjumálaráðherra.

Ríkisstjórnin samþykkti aukafjárveitingu til að gerðar yrðu nauðsynlegar jarðfræði- og flóðbylgjurannsóknir til að meta hættuna. Um það bil ári síðar lá niðurstaða vísindamanna fyrir og með hermun var sýnt hve stórt landsvæði kynni að fara undir vatn. Almannavarnanefndin í samvinnu við ríkislögreglustjóra taldi kosta 44 milljónir króna að gera viðbragðs- og rýmingaráætlun. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu um þá fjárveitingu. Efnt var til kynningarfunda meðal heimafólks og ráðist í gerð nauðsynlegra áætlana.

Það hefur ekki gosið síðan í vesturhluta Mýrdalsjökuls en árið 2010 varð gos í Eyjafjallajökli. Þá var gripið til þessara áætlana og ráðstafanir gerðar í samræmi við þær.

Hættan á vatnsflóði er mest þegar gos verður undir jökli. Talið er að verði stórgos í vesturhluta Mýrdalsjökuls taki nokkrar klukkustundir fyrir vatnsflauminn að brjótast úr farvegi Markarfljóts og fara yfir stóran hluta flatlendisins fyrir neðan Fljótshlíðina.

Þessar rannsóknir og gerð rýmingaráætlana að þeim loknum rifjast upp núna þegar rætt er um hugsanlegar afleiðingar fjórða gossins á Reykjanesi.

1448694Horft yfir Bláa lónið í átt að Þorbirni (mynd: mbl/Hákon).

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands, segir við Morgunblaðið í dag (6. nóv.) að hugsanlega verði næsta eldgos á Reykjanesi norðvestur af fjallinu Þorbirni. Jafnframt segist hann ekki vilja fullyrða neitt um hvernig hafi verið staðið að undirbúningi á sviði almannavarna yrði gos þarna. Það megi „alveg láta framkvæma æfingu“ vegna þess að gosið gæti valdið tjóni færi allt á versta veg. Orðrétt segir prófessorinn:

„Við getum fengið kvikustróka sem geta framleitt hraun sem ferðast með nokkurra kílómetra hraða á klukkustund, jafnvel upp undir 20 kílómetra hraða á klukkustund.“

Miðað við þetta er reiknað út að hraun gæti flætt að Bláa lóninu á þremur mínútum. Þar skammt frá er orkuverið Svartsengi og nýlega var tilkynnt að HS Orka og Grindavíkurbær ætluðu að endurskoða núgildandi deiliskipulag í Svartsengi til að leggja grunn að auðlindagarði við virkjunina. Bláa lónið er í jaðri skipulagssvæðisins.

„Óvissan er mikil og þegar ekki er á neinu föstu að byggja verður illmögulegt að gera einhverjar 100% áætlanir um viðbrögð,“ segir Otti Rafn Sigmarsson í Grindavík, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í Morgunblaðinu í dag. Almannavarnanefnd Suðurnesja, utan Grindavíkur, hefur ákveðið að efna til íbúafundar í Hljómahöll í Reykjanesbæ miðvikudagskvöldið 8. nóvember.

Þegar lesið er um óvissuna núna um viðbrögð á Reykjanesi vaknar spurning um hvort þar hafi í raun ekki verið sýnd sama fyrirhyggja og hjá Rangvellingum fyrir tveimur áratugum að láta að eigin frumkvæði vinna viðbragðs- og rýmingaráætlanir. Á fáum stöðum landsins geta náttúruhamfarir leitt til alvarlegra ástands. Á nesinu er helsti tengipunktur Íslands við umheiminn.