21.12.2018 9:32

Óstjórn í boði Dags B., Viðreisnar og VG

Dagur B. var borgarstjóri árið 2015 og átti að sjá til þess að farið yrði að ábendingum innri endurskoðunar vegna skrifstofunnar sem Hrólfur stýrði.

Skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um endurgerð bragga og samliggjandi húsa við Nauthólsveg 100 var kynnt í borgarráði að morgni fimmtudags 20. desember. Skýrslan er niðurstaða skoðunar embættisins á framkvæmdunum. Segir í kynningu á henni á vefsíðu Reykjavíkurborgar:

„Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant, hlítni [svo!] við lög,  innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.“

Hér verður gripið ofan í samantekt á vefsíðunni:

 „Á árinu 2015 gerði innri endurskoðun úttekt á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar [sem stjórnaði og bar ábyrgð á framkvæmdum við braggann] og skilaði skýrslu þar sem settar voru fram ábendingar um atriði sem betur mættu fara. Enn hafa ekki verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinganna. Innri endurskoðun telur að ef úrbætur hefðu verið gerðar og verklag lagfært í samræmi við ábendingarnar hefði verkefnið að Nauthólsvegi 100 ekki farið í þann farveg sem það gerði.“

Við framkvæmd verksins voru engir skriflegir samningar gerðir. Ekki var sóst eftir ráðgjöf innkaupadeildar og ekki var farið að innkaupareglum borgarinnar. Verktakar og aðrir sem unnu verkið voru almennt ráðnir af því þeir voru kunnugir þeim sem stóðu að framkvæmdunum. Engin skjöl um verkefnið fundust í skjalavörslukerfi borgarinnar og það er brot á lögum um opinber skjalasöfn svo og skjalastefnu borgarinnar

IMG_7207Upplýsingar til borgarráðs voru ekki ásættanlegar, villandi og jafnvel rangar. Verkefnið virðist hafa einhvern veginn „gleymst“ og „týnst“ meðal stærri og meira áberandi verkefna. Svo virðist sem hvergi hafi verið fylgst með því að verkefnið væri innan fjárheimilda.

Hrólfur Jónsson stjórnaði skrifstofu eigna og atvinnuþróunar þar til hann lét af störfum hjá borginni og fór á eftirlaun. Þá var tölvubréfum hans í borgarkerfinu eytt. Um samskipti Hrólfs og Dags B. segir:

„Mikil samskipti hafa verið milli fyrrum skrifstofustjóra [Hrólfs] og borgarstjóra allt frá stofnun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, en þeim ber saman um að borgarstjóra hafi ekki verið kunnugt um framvindu framkvæmda að Nauthólsvegi 100. Engar skriflegar heimildir liggja fyrir um upplýsingagjöf frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til borgarstjóra varðandi framkvæmdirnar.“

Dagur B. segir að Hrólfur hafi aldrei minnst á það við sig að framkvæmdir við endurgerð braggans hafi farið langt fram úr áætlun og kosti 425 m. kr. Má helst skilja borgarstjóra á þann veg að þetta hafi þótt of lítið mál í „miklum samskiptum“ þeirra Hrólfs. Við gerð skýrslunnar kynnti innri endurskoðun sér ekki tölvu borgarstjóra til að sannreyna tilvist skriflegra heimilda.

Dagur B. var borgarstjóri árið 2015 og átti að sjá til þess að farið yrði að ábendingum innri endurskoðunar vegna skrifstofunnar sem Hrólfur stýrði. Það var ekki gert heldur allt látið reka á reiðanum. Með þeim afleiðingum sem við blasa.

Sé það niðurstaða borgarfulltrúa Viðreisnar og VG að hagsmunum höfuðborgarinnar sé best borgið í höndum Dags B. situr hann áfram sem borgarstjóri og þessir flokkar leggja blessun sína yfir áframhaldandi óstjórn hans.