19.8.2023 10:35

Öskjuhlíðarskógurinn

Þegar hugað er að stærð svæðisins og umfangs skógarhöggsins er munur á hvort ætlunin sé að bregðast við brýnustu hættunni með því að höggva 1.200 tré eða öll 2.900.

Isavia telur nauðsynlegt að höggva tafarlaust að minnsta kosti 1.200 hæstu tré í Öskjuhlíð en helst 2.900 tré til að bæta flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli. Í gögnum Reykjavíkurborgar sem voru kynnt þegar málið var lagt fyrir borgarráð fimmtudaginn 17. ágúst og í umræðum um málið hefur verið lögð áhersla á hærri töluna um felld tré til að árétta að hér sé um að ræða kröfu sem „varðar stórt svæði og skóg sem nýtur hverfisverndar í deiliskipulagi og svæðis í Öskjuhlíð sem nýtur verndar sem borgargarður í aðalskipulagi, auk þess sem Öskjuhlíð [sé] á náttúruminjaskrá“. Var erindi Isavia sent umhverfis- og skipulagsráði til umsagnar áður en það yrði tekið til afgreiðslu í borgarráði.

Þegar hugað er að stærð svæðisins og umfangs skógarhöggsins er munur á hvort ætlunin sé að bregðast við brýnustu hættunni með því að höggva 1.200 tré eða öll 2.900.

Í stóru samhengi skógræktar á Íslandi eru þetta alls ekki háar tölur. Nú eru ræktaðar 6.000.000 trjáplöntur á ári til gróðursetningar víða um land og er stefnt að því að innan fárra ára verði framleiddar 25.000.000 – 25 milljónir – skógarplantna á ári og til þess verði nýtt snjalltækni sem er í örri þróun á gervigreindaröld.

1244999Reykjavíkurborg hefur hoggið tré vegna stórra stíga í Öskjuhlíð (mynd; mbl/Kristinn Magnússon).

Í greinargerð sem lögð var fyrir borgarráð er rifjað upp að fyrir 1950 hafi megnið af Öskjuhlíð verið grýtt mólend. Það muna og margir. Þá var flugvallarsvæðið umgirt í hlíðinni með gaddavírsúllum, steinsteypt skotskýli og pallar undir loftvarnabyssur voru víða og eldsneytistankar í niðursprengdum og víggirtum gjám. Flugmálastjórn hafði aðsetur í stórum bragga við rætur hlíðarinnar skammt frá því sem hús Háskólans í Reykjavík (HR) er nú. Þar var mýri og kjörlendi mófugla en fjær braggahverfið við Nauthólsvík þar sem Reykjavíkurborg notaði um 500 milljónir til að endurgera einn bragganna um árið. Nú telja borgaryfirvöld að það kosti „ekki minna en 500 milljónir króna að fella um 2.900 tré og er þá ekki tekið við af landmótun eða nauðsynlegum úrbótum á skóglausa svæðinu sem eftir stæði“.

Fyrstu gróðursetningu í Öskjuhlíð stunduðu starfsmenn flugmálastjórnar í nágrenni við skrifstofur sínar. Hitaveita Reykjavíkur stóð lengst af straum af kostnaði við trjáræktina og Skógræktarfélag Reykjavíkur hafði umsjón með henni.

Þeir sem leggja leið sína reglulega um Öskjuhlíðina vita að sá hluti skógarins sem skapar hættu fyrir flugvélar er víða orðinn svo þéttur að erfitt er að komast um hann.

1231616Perlufestin, stígar umhverfis Perluna. Hugmyndin var kynnt fyrir 10 árum og framkvæmdir hófust 2020.

Reykjavíkurborg hefur kostað upphitaðan og upplýstan stíg frá gatnamótunum við Valsheimilið upp að Perlu. Er hann hluti af svonefndri Perlufesti. Þá hefur stígur í þessari festi verið ruddur í suðvesturhlið Öskjuhlíðar. Vegna þessara stíga hefur trjágróður verið fjarlægður án þess að getið sé um fjölda plantna. Urð og grjót hóf framkvæmdir við stígagerðina haustið 2020.

Markmið Perlufestarinnar og grisjunar skógarins vegna hennar er að opna fleirum leið að Öskjuhlíðinni. Enginn vafi er á að opið svæði í hlíðinni fyrir ofan bílastæði HR hefði meira aðdráttarafl fyrir mannlíf en þéttur skógurinn.