8.4.2019 10:21

Orkupakkinn og máttlausi flöskupúkinn

Kallar Jónas eigin kenningu um þetta „flöskupúka frá ESB“ og getur sér þess til að hann sé nauðsynlegur til að tryggja framhald aðildar Íslands að EES.

Mál sem varða innleiðingu þriðja orkupakkann eru á dagskrá alþingis í dag (8. apríl) í fyrsta lagi þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um sjálfa innleiðinguna og síðan frumvörp frá iðnaðarráðherra um að alþingi verði að samþykkja með sérstökum lögum að Ísland tengist raforkukerfum annarra landa og að Orkustofnun hafi ekki aðeins sjálfstæði gagnvart raforkufyrirtækjum heldur einnig stjórnvöldum við raforkueftirlit sitt. Þá leggur iðnaðarráðherra fram breytingartillögu við þingsályktun frá því í fyrra um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Pc7Ka46niMeð breytingunum sem iðnaðarráðherra boðar er ekki aðeins farið að ákvæðum í þriðja orkupakkanum um að efla styrk Orkustofnunar sem eftirlitsaðila og þar með til neytendaverndar heldur er tekið af skarið um aðkomu alþingis að öllum ákvörðunum sem snerta hugsanlegar ákvarðanir varðandi lagningu sæstrengs til annarra landa en ekkert hefur verið aðhafst í því máli af hálfu stjórnvalda frá því að skýrsla um það var lögð fram árið 2016.

Með samþykkt tillögu iðnaðarráðherra er tekið af skarið um: (1) að ekki verði ráðist í tengingu íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi annars lands nema að undangengnu samþykki alþingis og (2) að áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu fara á þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets skuli fara fram heildstæð kostnaðar- og ábatagreiningu á áhrifum slíkrar framkvæmdar. „Er hér undirstrikað að lokaorðið í slíkri ákvarðanatöku er ávallt á hendi Alþingis,“ segir í greinargerð tillögunnar og einnig:

„Segja má að hagsmunaaðilar tillögunnar séu öll íslenska þjóðin þar sem markmið breytingarinnar er að undirstrika að Alþingi hafi úrslitavald varðandi ákvörðun um hvort tengja eigi íslenska raforkukerfið við raforkukerfi annarra landa. Tillagan er því lögð fram með almannahagsmuni að leiðarljósi.“

Skýrara verður þetta ekki orðað. Þeir sem helst berjast gegn þriðja orkupakkanum gera það á þeirri forsendu að íslenskt raforkukerfi sé á einn eða annan hátt lagt undir ESB og fagstofnun þess á sviði raforkumála, ACER. Þessum áróðri er haldið áfram þrátt fyrir að forstjóri ACER segði afsdráttarlaust á fundi Orkustofnunar miðvikudaginn 3. apríl að Ísland væri utan áhrifasvæðis ACER sem næði aðeins til ESB-landanna.

Þrátt fyrir að allt þetta liggi fyrir skýrt og skorinort birtist grein eftir Jónas Elíasson prófessor í Morgunblaðinu í morgun (8. apríl) þar sem enn er fjargviðrast út í ACER og látið eins og „miðstýring raforkumarkaðar í Evrópu“ gildi hér á landi. Ekkert í þeim tillögum sem liggja fyrir alþingi og ræddar verða þar í dag snúast um slíka miðstýringu.

Kallar Jónas eigin kenningu um þetta „flöskupúka frá ESB“ og getur sér þess til að hann sé nauðsynlegur til að tryggja framhald aðildar Íslands að EES. Sé þessi púki tengdur þriðja orkupakkanum er hann ekki í flösku heldur hefur hlaupið í þá sem mála skrattann á vegginn vegna orkumálanna. Þeir nota orð eins og „flöskupúki“ og „landsreglari“ til að gera léttvægan málstað sinn ábúðarmeiri en hann er engu að síður holur.