Opinber stefna að engu höfð
Framkvæmdin á eigendastefnu ríkisins vegna fjármálafyrirtækja hvetur ekki til þess að mikil vinna sé lögð í að móta opinbera stefnu um allt milli himins og jarðar.
Eftir að ríkið sat uppi með banka landsins í hruninu haustið 2008 var Bankasýsla ríkisins sett á fót sumarið 2009. Jafnframt var mótuð eigendastefna fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins og bankasýslunni falið að sjá um að henni yrði fylgt.
Þetta er fagleg umgjörð og hefur fagmönnum verið falið að starfa innan hennar í „armslengd“ frá stjórnmálamönnum. Nú fer þó tvennum sögum af faglegum samskiptum stjórnenda Landsbankans og stjórnenda bankasýslunnar. Báðir eru að vísu sammála um að þeir vissu að fjármála- og efnahagsráðherrann teldi kaup á einkareknu tryggingarfélagi brjóta í bága við eigendastefnu ríkisins. Virðist bankasýslan hafa verið í góðri trú um að stjórnendur bankans myndu fylgja henni. Þar á bæ hefur bankastjórinn hins vegar þá skoðun að Landsbankinn sé ekki ríkisbanki!
Nú er látið að því liggja að það leiði til skaðabótaskyldu gagnvart Kviku banka að stjórnendur Landsbankans brutu gegn eigendastefnunni þegar þeir gerðu kaupsamning um TM tryggingu við Kviku. Hvorugur samningsaðila hafi með öðrum orðum þurft að virða þá stefnu, þeir séu faglegir og því óbundnir af stefnumörkun stjórnmálamanna og stjórnvalda.
Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að alþingi samþykki stefnu til langs tíma á ýmsum sviðum og síðan aðgerðaáætlanir í anda stefnunnar sem grundvöll fjárveitinga og til leiðbeiningar um úrlausn mála. Eftir að stefnan er samþykkt fá hvers kyns þrýstihópar fótfestu fyrir kröfur um að við hana sé staðið. Þetta er þó aðeins önnur hlið málsins eins og sannast við framkvæmd eigendastefnunnar um fjármálafyrirtæki, stjórnendur þeirra blása á stefnuna þegar þeir sjá lukkupottinn.
Merki árlega bókamarkaðarins. Skyldi hann falla undir nýja bókmenntastefnu?
Í grein í Morgunblaðinu í dag (23. mars) vekur Lilja D. Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra athygli á að hún hafi lagt tillögu um bókmenntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 fyrir ríkisstjórnina 22. mars. Hún vinni að stefnu í málefnum sviðslista og frá árinu 2020 hafi orðið til kvikmyndastefna, myndlistarstefna, tónlistarstefna og stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs.
Bókmenntastefnan miðar að fjölbreyttri útgáfu á íslensku til að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu; auknum og bættum lestri, ekki síst meðal ungra lesenda; og nýsköpun bókasamfélagsins sem taki mið af tækniþróun og örum samfélagsbreytingum.
Stefnunni fylgir 19 liða aðgerðaáætlun. Að sögn ráðherrans snýst stærsta aðgerðin um endurskoðun á opinberu regluverki um bókmenntir og íslenskt mál, það er lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, lög um bókmenntir, lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, bókasafnalög o. fl.
Allt er þetta nýlegt regluverk sem nú kallar á enn meiri opinber umsvif til eigin viðhalds í ljósi tækniframfara.
Framkvæmdin á eigendastefnu ríkisins vegna fjármálafyrirtækja hvetur ekki til þess að mikil vinna sé lögð í að móta opinbera stefnu um allt milli himins og jarðar. Sumt er þess eðlis að betra er að láta verkin á líðandi stund tala en halda að maður höndli framtíðina með því einu að horfa til hennar.