22.1.2018 13:26

Óljóst inntak umræðu um borgarlínu

Snúist borgarlínumálið um að ákvarða höfuð-umferðaræðar um höfuðborgarsvæðið í sameiginlegu skipulagi svæðisins er það nauðsynlegt viðfangsefni.

Jón Gunnarsson, alþingismaður og fyrrv. samgönguráðherra, birti laugardaginn 20. janúar grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Borgaryfirvöld hafa brugðist. Vísar Jón með þeim orðum til þess hvernig borgaryfirvöld hafa tekið á umferðarmálum. Þau hafi árið 2012 með samningi við ríkið um milljarð á ári til almenningssamgangna fallið frá óskum um ný umferðarmannvirki í Reykjavík. 

„Óhætt er að segja að þessi tilraun hefur algerlega mistekist, fjölgun farþega í almenningssamgöngum hefur nær engin orðið, en á meðan lengjast biðraðir hvarvetna,“ segir Jón.  

Fyrir borgarstjórnarkosningar árið 2002 var lagning Sundabrautar mjög á dagskrá og rætt um hana á fundum með kjósendum. Þrjár leiðir voru einkum til umræðu: brú, göng eða svonefnd innri leið inn í Vogana í Reykjavík sem talin var hagkvæmust. Í grein sinni minnist Jón Gunnarsson á Sundabraut og segir: 

„Umræða um Sundabraut hefur staðið allt of lengi. Ákvarðana og athafna er þörf. Rétt er að halda því til haga að yfirvöld í Reykjavík hafa ekki talið í sínum verkahring að stuðla að lausn þessa máls. Síðasta aðgerð þeirra var reyndar sú að torvelda lagningu Sundabrautar með því að selja landskika undir íbúðabyggð þar sem Sundabraut átti að liggja frá landi við Elliðavog. Að mati Vegagerðarinnar mun sú ákvörðun ein og sér hækka kostnað við Sundabraut um 10 milljarða króna. Mögulegt er að sá kostnaðarauki muni lenda á herðum skattgreiðenda í Reykjavík, enda kveða vegalög á um að standi sveitarfélag í vegi fyrir að hagkvæmasti kostur legu þjóðvegar verði valinn að mati Vegagerðarinnar, sé mögulegt að rukka sveitarfélagið um mismuninn.“ 

Þessi mynd er af vefsíðu Viðskiptablaðsins og sýnir hugmynd um Sundabraut sem nú er úr sögunni vegna þess að landi í Vogunum hefur verið ráðstafað á þann hátt að brautin kemur ekki þar í land.

Tíminn hefur leitt í ljós að talið um Sundabraut fyrir kosningarnar 2002 var í raun marklaust, aldrei var tekið á málinu á markvissan hátt af hálfu borgaryfirvalda og það er í raun meiri óvissa nú en þá um úrræði til að leggja nýja leið í norðurátt út af höfuðborgarsvæðinu. 

Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga fyrir borgarstjórnarkosningar árið 2018 og láta ekki glepjast af því sem sagt er um borgarlínu, hún sé á næsta leiti og þess vegna helsta mál kosninganna. 

Snúist borgarlínumálið um að ákvarða höfuð-umferðaræðar um höfuðborgarsvæðið í sameiginlegu skipulagi svæðisins er það nauðsynlegt viðfangsefni. Hitt er alls ekki eins brýnt að ákveða hvaða ökutæki verða notuð á þessum höfuðleiðum. Það eru mikil mistök hjá þeim sem að málinu vinna að hafa látið umræðurnar þróast á þann hátt að þær snúist um gerð ökutækja.  

Ráðstöfun Reykjavíkurborgar á landinu í Vogunum gegn Sundabraut sýnir að eitt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu getur farið sínu fram og ýtt hugmyndum sem snerta allt svæðið út af borðinu. 

Á sínum tíma var samþykkt aðalskipulag fyrir Reykjavík sem gerði ráð fyrir umferðaræð þvert yfir Þingholtin frá austri til vesturs. Frá henni var horfið.  

Einnig má minnast hugmynda um að hafnargarð frá Örfirisey út í Engey. 

Borgarlína er nauðsynleg sem skipulagshugmynd. Önnur mál eru hins vegar brýnni úrlausnarefni og nærtækari þegar Reykvíkingar velja sér stjórnendur vilji þeir hverfa frá stjórnleysinu sem birtist í ólíkum myndum.