18.6.2022 11:44

Ölið, landinn og auglýsingar

Samþykkt frumvarpsins um frelsi smáframleiðenda til að selja vöru sína beint frá brugghúsi markar stærri tímamót í áfengissögu landsins en ætlað var.

Árið 1989 fékkst leyfi til að selja bjór hér á landi. Alþingi samþykkti aðfaranótt 16. júní 2022 að litlir áfengisframleiðendur megi selja áfengi á framleiðslustað sínum er heimildin ekki bundin við áfengt öl heldur einnig sterkari áfengistegundir eins og lýst er í áliti meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar þingsins.

Meirihlutinn lagði til að sala áfengis á framleiðslustað yrði heimil fyrir áfengisframleiðendur sem framleiddu minna en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári. Væri áfengisframleiðslan meiri en 100.000 lítra af áfengi á almanaksári yrði sala áfengis á framleiðslustað bundin við áfengi sem er að rúmmáli ekki meira en 12% af hreinum vínanda. Meirihlutinn taldi rétt að lögin tækju mið af hagsmunum allra smærri áfengisframleiðenda, þ.e. handverksframleiðenda, en væru ekki einungis bundin við sölu á áfengu öli. Það má með öðrum orðum selja sterkara áfengi en 12% sé framleiðslan minni en 100.000 lítrar á almanaksárinu.

Meirihluti þingnefndarinnar taldi ekki málefnalegt að gera greinarmun á milli framleiðenda áfengis og því lagði hann til að söluheimildin næði einnig til annarrar framleiðslu en á öli og þannig að smærri framleiðendur yrðu í áþekkri stöðu hvað þetta varðar.

MindexÞessi mynd frá Smiðjunni brugghúsi í Vík er á Facebook. Hún má ekki birtast sem auglýsing í íslenskum fjölmiðli.

Af þessu tilefni segir Helgi Sig­urðsson, eig­andi KHB brugg­húss á Borg­ar­f­irði eystra, í Morgunblaðinu í dag (18. júní): „Ég átti alls ekki von á því að sterka kæmi þarna inn, en því var laumað inn á síðustu metr­un­um.“ KHB-brugghús fram­leiðir ásamt bjór einnig gin og landa og varð fyrst allra brugg­húsa á land­inu til að fram­leiða landa.

Samþykkt frumvarpsins um frelsi smáframleiðenda til að selja vöru sína beint frá brugghúsi markar stærri tímamót í áfengissögu landsins en ætlað var úr því að þingnefndin undir formennsku Bryndísar Harladsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, lagði til að heimilt yrði að selja landa beint frá bruggara enda yrði framleiðslan innan við 100.000 lítrar á almannaksárinu.

Að orða þetta svo að þingnefndin hafi „laumað“ einhverju inn í frumvarpið til að auka svigrúm og frelsi smáframleiðenda er í samræmi við innlent viðhorf og hugsunarhátt varðandi áfengi, að opinbert vald, ríkið, eigi að hafa alla þræði í hendi sér til að borgararnir fari sér ekki að voða.

Nýsköpunarstarf bænda hefur rutt brautina í þessu efni samhliða kröfum um öfluga og alhliða ferðaþjónustu um landið allt.

Alþingismenn sýna ekki á öllum sviðum mikla trú að einstaklingar geti staðist freistingar slaki ríkisvaldið á höftunum. Á lokadögum þinghaldsins að þessu sinni var lögum breytt á þann veg að nú er íslenskum fjölmiðlum bannað að aug­lýsa nikó­tín­vör­ur á borð við nikó­tín­púða. Má rekja bannið til þess að svonefndar rafrettur eru komnar til sögunnar.

Þetta er furðulegt bann eins og allar hömlur í þessa veru gagnvart auglýsingum í innlendum fjölmiðlum. Sá gervimúr sem stjórnvöld reisa þar á tímum alþjóðlegra samfélagsmiðla sem soga héðan æ meiri fjármuni með auglýsingasölu sýnir algjört hugsunar- og andvaraleysi yfirvalda á tímum þegar innlend fjölmiðlun á mjög undir högg að sækja.

Þess verður örugglega ekki langt að bíða að innlendir öl- og landaframleiðendur ná til ískenskra neytenda á Facebook eða annars staðar.