16.5.2017 10:46

Ólafur Ólafsson fer að eigin ósk fyrir þingnefnd

Í greininni í Þjóðmálum eru nefnd þrjú lík dæmi sem sýna aðferðir Ólafs í viðskiptalífinu og snerta samstarf hans við erlenda aðila og leið hans til að koma ár sinni fyrir borð.

Ólafur Ólafsson kenndur við Samskip fer að eigin ósk fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis miðvikudaginn 17. maí til að rétta hlut sinn eftir að rannsóknarnefnd alþingis birti skýrslu um gervi-aðkomu þýsks banka að einkavæðingu Búnaðarbankans á sínum tíma.

Vilji þingnefndarmenn glöggva sig á viðskiptaferli Ólafs Ólafsson geta þeir til dæmis lesið greinina Falið eignarhald Ólafs Ólafssonar eftir Björn Jón Bragason á bls. 35 í tímaritinu Þjóðmálum 1. hefti 8. árg. 2012, sjá hér .

Í greininni eru nefnd þrjú lík dæmi sem sýna aðferðir Ólafs í viðskiptalífinu og snerta samstarf hans við erlenda aðila og leið hans til að koma ár sinni fyrir borð. Þar er um að ræða skipafélagið Bruno Bischoff í Bremen, bankann Hauck & Afhäuser í Hamborg og auðkýfinginn Al-Thani frá Quatar.

Þegar Landsbanki Íslands átti 85% í Samskipum vegna uppgjörsmála Sambands ísl. samvinnufélaga tilnefndi Sverris Hermannsson bankastjóri Ólaf Ólafsson, sem þá stjórnaði Álafossi, sem forstjóra Samskipa árið 1993. Með fléttunni sem Ólafur bjó til undir merkjum félagsins North Atlantic Transport (NAT) í samvinnu við Bruno Bischoff tókst honum að sannfæra Landsbankann um að fengist hefði erlendur kjölfestufjárfestir í Samskip. Var það upphafið að viðskiptaveldi Ólafs.

Þráðurinn í viðskiptasögu Ólafs er í raun einfaldur þótt flétturnar séu flóknar. Í almennum umræðum er það einkenni varnar hans að hann sæti jafnan ósanngjörnu mótlæti af hálfu opinberra aðila, hvort sem um er að ræða sérstakan saksóknar, dómara eða nú rannsóknarnefnd alþingi. Ólafur sjálfur, eiginkona hans eða lögmenn skrifa reglulega greinar þessa efnis í blöðin.

Í tilefni af för Ólafs í þingnefndina birtist til dæmis grein í Morgunblaðinu í dag eftir Gísla Guðna Hall lögmann sem á að sýna að brotið hafi verið á Ólafi þar sem hann hafi ekki fengið að andmæla niðurstöðu rannsóknarnefndar alþingis áður en hún birtist.

Rannsóknarnefnd Alþingis óskaði á sínum tíma eftir því að Ólafur kæmi fyrir nefndina og gæfi skýrslu en hann varð ekki við því. Hann var þá kvaddur fyrir dóm. Eftir að leyst var úr ágreiningsatriðum, um meint vanhæfi héraðsdómara og heimild nefndarinnar til að kveðja Ólaf fyrir dóm, gaf Ólafur skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar 2017.

Í lok greinar sinnar í Morgunblaðinu í dag segir Gísli Guðni Hall:

„Í tilvikinu sem hér er til umfjöllunar var réttaröryggi Ólafs ekki tryggt með nokkrum hætti, þrátt fyrir að hagsmunir hans af því hvernig um hann yrði skrifað hafi verið augljósir. Svona málsmeðferð verður ekki lýst öðruvísi en sem pólitískum skrípaleik, sem skrifa verður bæði á ófullkomna lagasetningu og afstöðu þess sem fór með rannsóknarvaldið í umrætt sinn.“

Þessi texti er einmitt til marks um hvernig jafnan er leitast við að draga upp þá mynd á opinberum vettvangi hér að níðst sé á Ólafi Ólafssyni sé skýrt frá viðskiptamálum sem hann snerta. Í kynningu á höfundi greinarinnar í Morgunblaðinu segir:

„Höfundur er hæstaréttarlögmaður og setti fram ítrekuð erindi f.h. Ólafs Ólafssonar til rannsóknarnefndar Alþingis meðan skýrslugerðin stóð yfir.“

 

Af þessum orðum verður ráðið að rannsóknarnefndarmönnum hafi verið fullkunnugt um sjónarmið umbjóðanda lögmannsins. Daginn áður en Ólafur fer fyrir þingnefndina talar lögmaðurinn um „pólitískan skrípaleik“. Með þeim orðum er hann ef til vill að búa í haginn fyrir það sem sagt verður eftir nefndarfundinn, þyki Ólafi of nærri sér gengið.  

Þingnefndarmenn verða að sýna að þeir hafi burði til að eiga orðastað við Ólaf Ólafsson án þess að hann skilji þá eftir í svipaðri stöðu og ýmsa fyrrverandi viðskiptafélaga sína í áranna rás.