11.12.2018 10:06

Nýtt regluverk um fjármálafyrirtæki

Umræðurnar minna á nauðsyn þess að stjórnvöld miðli upplýsingum tímanlega og að áhugamenn um einstök mál grípi þau ekki á lofti þegar allt er orðið um seinan.

Í gær var hér vakið máls á fundi á vegum Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh þar sem fulltrúar ríkisstjórna lögðu lokahönd á samþykkt um mannréttindi farand- og flóttafólks. Unnið hefur verið að gerð alþjóðasamþykktar um þetta mál frá árinu 2016 þegar leiðtogar þjóða heims settu sér það markmið að skilgreina réttarstöðu þessa fólks í alþjóðasamþykkt. Á þessu ári hefur verið unnið að gerð texta þessarar samþykktar og verður hann lagður fyrir allsherjarþing SÞ.

Satt að segja veit ég ekki hvort minnst hefur verið á þetta sérstaka mál í árlegum skýrslum utanríkisráðherra til alþingis. Hitt er að árlega senda þingflokkar fulltrúa á allsherjarþing SÞ og hefðu þeir átt að vekja máls á þessari væntanlegu samþykkt opinberlega hefði þeim þótt ástæða til þess. Umræður um málið minna á nauðsyn þess að stjórnvöld miðli upplýsingum tímanlega og að áhugamenn um einstök mál grípi þau ekki á lofti þegar allt er orðið um seinan.

1101780Myndin birtist á mbl.is og sýnir Bjarna Benediktsson kynna hvítbókina.

Þetta er gott að hafa hugfast í tilefni þess að í gær (10. desember) kynnti Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Með hvítbókinni er lagður grundvöllur að umræðum og stefnumörkun á þessu sviði sem tekur mið af þeim gífurlega miklu breytingum sem orðið hafa frá bankahruninu fyrir 10 árum.

Settar hafa EES-reglur sem ætlað er að draga úr áhættu og auka viðnámsþrótt banka. Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu þessara „verkfæra“ hér á landi. Sé staðan nú borin saman við það sem var fyrir 10 árum má auðveldlega komast að þeirri niðurstöðu að hér hafi upphaflega verið innleiddar EES-reglur um frjálst flæði fjármagns án þess að reistir væru nægilega öflugir varnargarðar.

Nú er markmiðið  að  standa  vörð  um  kerfislega  mikilvæga  starfsemi fjármálafyrirtækja  og  draga  úr  áhættu  fyrir  ríkissjóð  ef  til  rekstrarerfiðleika eða áfalls kemur. Það felst í því að undirbúa banka og eftirlitsaðila fyrir slíkar aðstæður,  m.a. með viðbragðsáætlunum  sem  skulu  unnar  fyrir  fram  og stöðugt uppfærðar og heimildum fyrir eftirlitsaðila til að grípa inn í starfsemi lánastofnana  og  verðbréfafyrirtækja  ef  á  þarf  að  halda.  Þetta verður gert með nýrri löggjöf sem leysir ákvæði neyðarlaganna frá október 2008 af hólmi.

Efni hvítbókarinnar sýnir hve mikinn og víðtækan lærdóm menn hafa dregið af bankahruninu  hvarvetna í Evrópu og almennt við gerð regluverks sem snýr að starfsemi fjármálafyrirtækja. Starfsemi eins og sú sem lýst er í bókinni Kaupthinking á að heyra sögunni til. Bankar eiga ekki lengur að geta átt sig sjálfir.