30.11.2019 7:13

NUPI-forstjóri mælir með EES-þátttöku Norðmanna

Á grundvelli samningsins ættu EES-ríkin lifandi og kraftmikið samstarf sem væri í sífelldri þróun, hún yrði ekki stöðvuð.

Norska utanríkismálastofnunin – Norsk Utenrikspolitisk Institutt (NUPI)­ – efndi 22. nóvember til málþings í tilefni af útgáfu á tímariti stofnunarinnar Internasjonal Politikk sem helgað er 25 ára afmæli EES-samningsins. Heftið má nálgast hér.

Í öllum norsku stjórnmálaflokkunum fyrir utan þann sem er lengst til vinstri – Rødt – styður meirihluti kjósenda EES-aðildina. Vekur sérstaka athygli að þetta á einnig við um norska Miðflokkinn – Senterpartiet – en forystumenn hans gagnrýna EES-aðildina oft með þungum orðum.

NUPI-60-med-vimpler_system_toppbildeNý könnun á vegum Sentio/NUPI sýnir að 70% Norðmanna telja EES-samninginn góðan samning, aðeins 20% telja svo ekki vera og 10% hafa ekki myndað sér skoðun,

Um þessar mundir ber svonefnt NAV-hneyksli hátt en það á rætur í of þröngri túlkun á réttindum norskra ríkisborgara á rétti til félagslegra bóta frá Noregi fari þeir til dæmis til dvalar á Spáni eða í öðru EES-landi. Þessi þrönga túlkun hefur verið framkvæmd á svo harkalegan hátt að minnst 48 einstaklingar hafa hlotið rangan dóm vegna hennar og sumir sætt fangelsisvist.

ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, gerði athugasemd við þessa framkvæmd norskra yfirvalda. Miklar umræður hafa orðið um það á stjórnmálavettvangi en það er ekki endanlega leitt til lykta.

Á NUPI-málþinginu sagði Pernille Rieker, sérfræðingur hjá NUPI, að NAV-málið drægi athygli að þætti EES-samningsins sem ekki væri oft ræddur í Noregi, það er réttindunum sem einstaklingar hefðu öðlast vegna hans. Í EES-samstarfinu ætti ekki aðeins að líta til samstarfsins mili ríkja heldur einnig réttindanna sem af því hefði leitt fyrir einstaklinga í EES-löndunum.

Þetta er einmitt atriði sem ég legg ríka áherslu í máli mínu um EES-samninginn þegar ég skýri skýrsluna um EES-samstarfið sem hér var birt 1. október 2019.

Ulf Sverdrup, forstjóri NUPI, lýsti þeirri skoðun í lok málþingsins að á heildina litið bæri að líta á EES-samstarfið sem árangursríkt fyrir Noreg. Þá lægi einnig fyrir að EES-samningurinn stæðist mjög vel tímans tönn. Hann sagðist þess fullviss að samningurinn héldi gildi sínu áfram. Á grundvelli samningsins ættu EES-ríkin lifandi og kraftmikið samstarf sem væri í sífelldri þróun, hún yrði ekki stöðvuð. Það hefði enginn gagn af því að frysta samstarfið á núverandi stigi. Norðmenn ættu í raun engan annan kost en EES-aðildina. Stuðningur við ESB-aðild væri ekki mikill og fáir vildu vera án samnings við ESB. Þeir sem gagnrýndu EES-samstarfið í könnun Sentio/NUPI vildu draga úr skyldunum sem fylgdu EES-samstarfinu.

Verkamannaflokksmaðurinn Bjørn Tore Godal var utanríkisráðherra og ritaði undir EES-samninginn fyrir Noreg á sínum tíma. Hann tók þátt í málþinginu og minnti á að samkvæmt EES-samningnum gætu Norðmenn staðið á rétti sínum í einstökum málum og þeir ættu að ræða þau á eigin vettvangi og gagnvart ESB. Ekki væri nóg að gert í því efni. Menn nýttu ekki þau tækifæri sem þeir hefðu til að skapa sér sérstöðu og skelltu síðan skuldinni á EES-samninginn og ESB.

Ulf Sverdrup harmaði hve Norðmenn hefðu litla þekkingu á EES-málum. „Þegar stjórnmálamenn hafa ekki áhuga á EES hafa blaðamenn það ekki heldur. Og þegar blaðamenn hafa ekki áhuga á EES hafa stjórnmálamenn það ekki heldur,“ sagði hann. Ekki væri líklegt að menn næðu meiri árangri í samstarfinu ef þeir hefðu engan áhuga á því.

.