29.12.2018 11:19

Tímamótabreyting Morgunblaðsins

Við þessi áramót verða því tímamót í sögu Morgunblaðsins og íslenskrar fjölmiðlunar. Ólíklegt er að þeirra verði nokkurs staðar getið nema hér

Áramótablöð Morgunblaðsins hafa árum saman geymt áramótahugleiðingar stjórnmálamanna. Er sérstakt rannsóknarefni fyrir fjölmiðlafræðinga að kanna hvenær sá siður hófst og hvernig að framkvæmd hans hefur verið staðið.

Árum ef ekki áratugum saman ritaði formaður Sjálfstæðisflokksins einn slíka hugvekju í blaðið. Birtist hún á heiðursstað á miðopnu þess. Það var líklega á níunda áratugnum sem forystumenn annarra flokka fengu boð um að skrifa áramótahugleiðingu í blaðið. Síðan vék formaður Sjálfstæðisflokksins af miðopnunni. Í lok árs 2018 birtist ekki grein eftir neinn flokksformann í áramótablaði Morgunblaðsins.

Við þessi áramót verða því tímamót í sögu blaðsins og íslenskrar fjölmiðlunar. Ólíklegt er að þeirra verði nokkurs staðar getið nema hér, að minnsta kosti er hvergi minnst á þau af ritstjórn blaðsins svo að séð verði.

A2018-12-29_w272Að þetta gerist án skýringa af hálfu ritstjórnarinnar skilur eftir eyðu fyrir þá sem kunna að vilja fjalla um þessa breytingu fræðilega á síðari stigum.

Ein skýringin kann að vera að ritstjórn blaðsins þyki óþarfi að leggja átta blaðsíður undir efni af þessu tagi. Í fyrra var birt hálfsíðumynd af hverjum greinarhöfundi og texti hans undir henni. Flokkarnir á alþingi eru enn átta í lok árs 2018 auk tveggja þingmanna utan flokka, fórnarlamba tilraunar til að kljúfa Flokk fólksins á barnum Klaustur að kvöldi þriðjudags 20. nóvember.

Önnur skýring kann að vera að ritstjórn blaðsins telji að efni af þessu tagi höfði ekki lengur til lesenda þessa. Þeir hafi engan áhuga á því sem forystumenn í stjórnmálum hafi að segja.

Þriðja skýringin kann að vera að forystumenn flokkanna hafi tekið sig saman um að verða ekki við óskum um áramótagreinar í dagblöðum. Útbreiðsla þeirra sé svipur hjá sjón miðað við það sem áður var og aðrar áhrifameiri leiðir séu til að ná sambandi við almenning.

Hér skal ekki gert upp á milli þessara skýringakosta. Réttmæt rök eru fyrir þeim öllum. Breytingin er orðin og ólíklegt að aftur verði horfið til fyrri hátta.