8.3.2017 16:45

Miðvikudagur

Í dag ræddi ég á ÍNN við Björn G. Björnsson sýningahönnuð um bók hans um Rögnvald Ólafsson húsameistara. Samtalið er frumsýnt klukkan 20.00 í kvöld.

 

Alkunna er að fátt er meira eitur í beinum vinstrisinna en að almenningur lýsi skoðun á störfum þeirra eða að birtar séu upplýsingar sem stuðlað geta að meiri samkeppni og þar með betri þjónustu í opinberum rekstri. Andstaða við þetta tvennt birtist hvað eftir annað hjá meirihluta vinstrisinna í borgarstjórn Reykjavíkur. Þeir tóku Reykjavíkurborg út úr könnun á viðhorfi borgarbúa til þjónustunnar sem veitt er í nafni hennar eftir að þeir fengu slæma útreið í slíkri könnun.

 

Á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 7. mars höfnuðu vinstrisinnar tillögu Sjálfstæðismanna um að Reykjavíkurborg óskaði eftir sundurgreindum upplýsingum um árangur hvers skóla í borginni í PISA-könnun 2015 í einstökum greinum og afhenti þær viðkomandi skólastjórnendum, vildu þeir nota þær í því skyni að bæta skólastarfið.

 

Samfylkingarmaðurinn Skúli Helgason sagði á fundinum að þetta væri „gæluverkefni“ svo að vitnað sé í frásögn Morgunblaðsins í dag og snerist um að hampa PISA-niðurstöðum einstakra skóla og  á samkeppni í skólakerfinu. Kjartan Magnússon sagði slíkt vera útúrsnúning enda ættu niðurstöðurnar að bæta hvern skóla. Mátti skilja Skúla á þann veg að hann vildi ekki birta upplýsingar um PISA vegna ótta við samkeppni milli skóla.

 

Í fréttum í dag er síðan skýrt frá því að menntamálastofnun ríkisins vilji ekki einu sinni sýna kennurum niðurstöður í samræmdum könnunarprófum.

 

Ótrúleg leyndarhyggja leggst nú yfir grunnskólana í höfuðborginni. Hún er í hróplegri andstöðu við þá stefnu að virkja foreldra til sem mestrar þátttöku í skólastarfi. Það tekst að sjálfsögðu ekki ef litið er á allt sem leyndarmál sem varðar innra starf skólanna og árangur innan þeirra.

 

Þegar Björk Vilhelmsdóttir úr vinstri meirihlutanum kvaddi borgarstjórn um árið samþykkti meirihlutinn henni til heiðurs og í kveðjuskyni að setja viðskiptabann á Ísrael, hvorki meira né minna, enda mundi það gleðja Palestínumenn. Mátti skilja viðbrögð meirihlutamanna á þann veg að venja væri að verða við ósk þess sem kvaddur væri hverju sinni.

Hildur Sverrisdóttir, Sjálfstæðisflokki, sat sinn síðasta borgarstjórnarfund í gær en hún hefur tekið sæti á alþingi. Hildur flutti í upphafi fundar tillögu um að borgarstjórn beindi þeim tilmælum til alþingis að í meðförum áfengisfrumvarpsins yrði tekið mið af því að aukin smásöluverslun með áfengi styddi við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbær hverfi. Felldi meirihlutinn þá tillögu. Hugmyndin um viðskiptabann lifir enn meðal vinstri meirihlutans.