24.2.2017 15:15

Föstudagur 24. 02. 17

Á sínum tíma þótti ekki endilega eðlilegt að sjónvarpað yrði beint frá öllum fundum alþingis. Var meiri áhugi á því meðal þingmanna að tryggja að hlusta mætti á þá beint í útvarpi. Kannað var hvað það kostaði og óx mönnum kostnaðurinn í augum.

Nú er sérstök alþingisrás í sjónvarpi og á tölvum má hvenær sem er hlusta eða horfa á ræður auk þess sem texti þeirra er aðgengilegur á netinu innan skamms tíma frá því að þær eru fluttar.

Virðing alþingis hefur ekki aukist við þessa auknu miðlun og ætla má að sóknin eftir að fá orðið í „frjálsum tíma“ þingmanna sem ber fyrirsagnir eins og Störf þingsins eða Fundarstjórn forseta stafi að verulegu leyti af áhuga og þörf þingmanna fyrir að birtast í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þeir hafa að minnsta kosti ekki alltaf mikið til lands- eða þjóðmála að leggja, miklu frekar er um innbyrðis karp að ræða eins og á dögunum þegar fjöldi þingmanna tók til máls til þess eins að kvarta undan því að aðrir þingmenn hefðu ekki talað í umræðu daginn áður!

Margt bendir til þess að beinu útsendingarnar úr sjónvarpssal hafi ekki aðeins áhrif á hve margir vilja komast að í „frjálsu tímunum“ heldur einnig á hvernig menn haga máli sínu, meira að segja á forsetastóli alþingis.

Fimmtudaginn 23. febrúar tóku tveir þingmenn til máls undir liðnum Fundarstjórn forseta og báðu um að umræðum um næsta þingmál yrði hagað þannig að tekið yrði mið af fundartíma velferðarnefndar þingsins. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sat á forsetastóli. Um viðbrögð hans stendur þetta í þingtíðindum á vefsíðu alþingis:

„Til skýringar, svo alþjóð skilji, hafa þingmenn rætt undir liðnum um fundarstjórn forseta málefnalega gagnrýni á að það sé fundur í nefnd og slíkt og þar af leiðandi skuli ekki halda þingfund.“

Hafi þingsköpum verið breytt á þann veg að þingforseti eða þingmenn tali til alþjóðar er um nýmæli að ræða. Hafi þeim ekki verið breytt gerist forseti þingsins þarna sekur um brot á þingskapalögum með því að beina orðum sínum til alþjóðar.