22.2.2017 14:45

Miðvikudagur 22. 02. 17

Í dag ræddi ég við Bryndísi Hagan Torfadóttur, framkvæmdastjóra fyrir SAS á Íslandi, í þætti mínum á ÍNN. Frumsýning kl. 20.00 í kvöld.

Hér var á dögunum minnst á niðurlægjandi skrif Smára McCarthys, þingmanns Pírata úr suðurkjödæmi, um alþingi. Eitt af því sem hann kvartaði undan var að hann gæti ekki sem þingmaður séð til þess að fé fengist til að gera við þakið á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Eftir að birtur var kafli  úr skrifum mínum á Eyjunni upplýsti Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG úr suðurkjördæmi, þar að í fjárlagavinnu fyrir árið 2017 hefðu þingmenn Suðurkjördæmis raðað niður nokkrum brýnum úrlausnarefnum og beðið þrjá þingmenn í fjárlaganefnd að vinna þeim brautargengi, þar með framlagi til Garðyrkjuskólans og hefðu 70 milljón krónur fengist til brýnustu viðgerða á skólanum.

Segir svo í nefndaráliti 1. minnihluta fjárlaganefndar frá því í desember: „ Í fjórða lagi eru 70 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á því húsnæði Landbúnaðarháskólans sem er á Reykjum í Ölfusi. Nefndin væntir þess að í kjölfar endurbótanna verði húsnæðið afhent Ríkiseignum sem innheimti leigu á móti reglulegu viðhaldi með sama hætti og almennt á við um annað húsnæði í eigu ríkisins."

Smári McCarthy er eins og áður sagði þingmaður suðurkjördæmis, megi marka orð Ara Trausta kom hann sem slíkur að því að raða „nokkrum brýnum úrlausnarefnum“ við gerð fjárlaga 2017, þar með viðgerð á Garðyrkjuskólanum sem varð að lögum. Skrif Smára til að rakka niður alþingi verða enn óskiljanlegri þegar þetta er upplýst. Veit hann ekkert hvað gerist á alþingi?

Björn Leví Gunnarsson sat fyrir Pírata í fjárlaganefnd í desember 2016. Lét hann undir höfuð leggjast að upplýsa þing- og flokksbróður sinn um örlög þessa sérstaka áhugamáls hans? Því verður varla trúað eftir að lesin er skammarræðan sem Björn Leví flutti yfir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra þriðjudaginn 21. febrúar fyrir að hafa ekki sem fjármálaráðherra lagt skýrslu aflandsmál fyrir alþingi fyrir þingkosningar. Þar sagði Björn Leví meðal annars: „Þingmenn verða að krefjast agaðri vinnubragða Alþingis vegna og þjóðarinnar vegna.“

Krafan um öguð vinnubrögð á kannski ekki Björn Leví sjálfan. Í umræðum um aflandsskýrsluna barði Steingrímur J. Sigfússon fast í bjöllunni og hrópaði til Björns Levís: „mætti ég biðja hv. málshefjanda [Björn Leví] að … hætta að gjamma svona fram í alltaf“.

Ekki tók betra við þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírati, tók til máls um aflandsskýrsluna. Dylgjur og uppspuni einkenndi hennar mál.