14.12.2015 19:00

Mánudagur 14. 12. 15

Í dag íslenskaði ég útdrátt á grein á vefsíðu New Europe um væntanlegar breytingar til að auka landamæravörslu Schengen-svæðisins. Greinina má sjá hér. Það skiptir máli fyrir íslensk stjórnvöld að fylgjast náið með öllum umræðum um þessi mál því að framkvæmd þeirra snertir okkur beint vegna aðildar að Frontex.

Þarna er einnig rætt um samræmdar reglur um heimsendingu og brottvísun fólks. Slík mál eru nú til umræðu hér landi og hafa tekið þá stefnu að alþingismenn virðast búa sig undir að taka völdin af útlendingastofnun með því að lögleiða ríkisborgararétt fyrir fólk sem stofnunin hefur hafnað í krafti laga og á grundvelli reglna sem settar eru með vísan til laga. Ekki er langt síðan að alþingi samþykkti breytingar á útlendingalögum til að afmá afskipti ráðherra af ákvörðunum um hælisumsóknir.

Í lögunum er heimilað að skjóta ákvörðunum útlendingastofnunar til sérstakrar úrskurðarnefndar en ekki til ráðuneytis eins og áður var. Í þeim tilvikum sem nú eru til umræðu ákváðu viðkomandi að leita ekki til úrskurðarnefndarinnar heldur una ákvörðun um brottvísun og fóru úr landi.

Síðan hefur einn þessara aðila ranglega borið á lögmann sinn að hann hafi ekki viljað að kært yrði til úrskurðarnefndarinnar.

Hvað sem efni málsins varðar er dæmalaust ef alþingi grípur til lagasetningarvalds í máli af þessum toga og stjórnmálamenn sem fyrir fáeinum misserum vildu afmá pólitíkina við afgreiðslu útlendingamála taka hana beint í sínar hendur.

Hvernig falla vinnubrögð af þessu tagi að umbyltingu stjórnarháttanna sem alþingi kynnti í ályktun sinni vegna bankahrunsins?