5.12.2015 17:00

Laugardagur 05. 12. 15

Matthias Brinkmann, sendiherra ESB á Íslandi, efndi til óformlegs blaðamannafundar í sendiráði Evrópusambandsins í Aðalstræti þriðjudaginn 24. nóvember 2015 og bauð svo til hádegisverðar. Á fundinum fór hann yfir það sem er efst á baugi hjá ESB en tekið var fram að ekki væri heimilt að vitna í sendiherrann. Hann veitti Morgunblaðinu hins vegar símaviðtal eftir fundinn og birtist frásögn af því í blaðinu 25. nóvember. Þetta er næsta undarlegur aðdragandi að umræðum sem síðan hafa verið á síðum blaðsins um hvernig líta beri á stöðu Íslands gagnvart ESB.

Ljóst er að ESB-menn líta þannig á að það sé alfarið undir Íslendingum komið hvaða stöðu þeir hafi gagnvart ESB. Þegar kemur að afstöðu ESB vilja embættismenn ESB ekki taka af skarið. Þeir vita ekki hvernig því yrði tekið sækti Ísland um að nýju enda eru það ríkisstjórnir ESB-landa sem ákveða það og hefur hver einstök þeirra neitunarvald um aðildarferli. Augljóst er að núverandi framkvæmdastjórn mun ekki taka við umsókn á meðan hún situr við völd til ársins 2019.

ESB-menn átta sig á hinni miklu óvissu sem ríkir um framtíð sambandsins. Ágreiningur er um evruna og þróun Schengen-samstarfsins auk þess sem Bretar vilja skapa sér sérstöðu og náist ekki samkomulag um hana aukast líkur á úrsögn Breta úr sambandinu. Kannanir í Danmörku sýna að þeim sem höfnuðu að afmá fyrirvara Dana gagnvart ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu fimmtudaginn 3. desember var efni fyrirvaranna ekki efst í huga heldur varðstaða gegn því að meira af fullveldi Dana yrði framselt til ESB.

Utanríkisráðherra Íslands og forsætisráðherra hafa skýrt ESB-mönnum frá því að aðildarumsókn Íslands hafi verið afturkölluð. Í Morgunblaðinu í dag, 5. desember, segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra: og formaður Sjálfstæðisflokksins: „Ég lít þannig á að það sé ekki í gildi umsókn Íslands að ESB. Ég lýsi yfir furðu á því, að það skuli vera einhverjum vafa undirorpið, af Evrópusambandsins hálfu, hver staða málsins er. Þeir hafa fengið mjög skýr skilaboð, að minnsta kosti frá þeim sem fer fyrir utanríkisstefnunni og forsætisráðherra.“

Vekur furðu að utanríkisráðherra skuli ekki kalla Matthias Brinkmann á teppið vegna afskipta hans af íslenskum innanríkismálum. Sé ekki staðið í ístæðið gagnvart ESB-mönnum þegar þeir taka höfnun með afneitun er ýtt undir umræður sem miða öðrum þræði að því að grafa undan trausti á utanríkisráðherranum.