13.8.2015 19:30

Fimmtudagur 13. 08. 15

Viðtal mitt við Hörð Áskelsson, organista í Hallgrímskirkju, á ÍNN í gær má sjá hér.

BHM tapaði að sjálfsögðu málinu sem það höfðaði gegn ríkinu vegna laganna sem alþingi samþykkti til að stöðva verkfall félagsins og verkfall hjúkrunarfræðinga. Hæstiréttur hafnaði kröfu BHM í dag. Fyrir setningu laganna voru skýr efnisrök sem er á valdi alþingismanna að meta, formlega var staðið rétt að setningu laganna. Hefði hæstiréttur orðið við kröfu BHM hefði hann einfaldlega farið inn á verksvið löggjafans.

Niðurstaðan fellur að þeirri skoðun að Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, sé einfaldlega í pólitískri herferð gegn ríkisstjórninni með því að beita sér fyrir þessum málaferlum. Henni og Páli Halldórssyni, formanni samninganefndarinnar, er um megn að semja fyrir umbjóðendur sína af flokkspólitískum ástæðum og þess vegna kemur í hlut gerðardóms að ákvarða laun félaga í BHM.

Í dómi hæstaréttar segir:

„Þegar takmarkanir voru settar á framangreind réttindi [verkfalls- og samningsréttindi] með lögum nr. 31/2015 má telja að fullreynt hafi verið að kjaradeilunni yrði lokið með samningum, en stefndi [ríkið] mátti í ljósi þess, sem fyrr greinir, telja sér bera að gæta að almannaheill af efnahagslegum ástæðum með því að ganga ekki til samninga við aðildarfélög áfrýjanda, sem hefðu getað stefnt víðtækum kjarasamningum annarra í uppnám. Verður að þessu virtu að líta svo á að stefndi hafi með réttu mátt telja nauðsynlegt að grípa til lagasetningar til að ljúka þessari kjaradeilu, sem fól samkvæmt áðursögðu í sér ógn við almannaheill og skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum annarra, enda verður ekki séð að önnur úrræði hafi staðið til boða.“

Þegar dómurinn liggur fyrir kýs formaður BHM að túlka hann á þann sérkennilega hátt að hæstiréttur boði breytingar í samskiptum á vinnumarkaði, samflot þar sé ekki eins sjálfsagt og áður.

Hæstiréttur hefur einfaldlega ekkert um það að segja hvort aðilar vinnumarkaðarins kjósa að eiga samflot eða ekki enda mæla lög ekki fyrir um slíkt. Túlkun formanns BHM snýst um eitthvað annað en þennan dóm.

Hafi það verið pólitískt markmið með aðgerðum BHM undir forystu Þórunnar Sveinbjarnardóttur að auka fylgi Samfylkingarinnar hefur einnig mistekist að ná því ef marka má skoðanakannanir.