1.3.2015 19:15

Sunnudagur 01. 03. 15

Vefþjóðviljinn hefur í mörg ár haldið lesendum sínum upplýstum um hve fráleitt var hjá Evrópusambandinu að skylda bíleigendur til að nota endurnýjanlegt eldsneyti í ákveðnu hlutfalli (10%) sem eldsneyti á bíla sína. Á Vefþjóðviljanum í dag segir meðal annars:

„Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra leiddi þessa hörmulegu stefnu í íslensk lög vorið 2013 að frumkvæði fyrirtækisins Carbon Recycling International. Þetta óþarfa lagaboð kostaði Íslendinga um 700 milljónir króna í auknum gjaldeyrisútgjöldum á síðasta ári. Lífolíurnar sem fluttar eru til landsins til uppfyllingar laganna eru miklu dýrari en hefðbundið jarðefnaeldsneyti.“

Það er sérkennilegt að alþingi skuli ekki hafa afmáð lögin sem lýst er hér að ofan og eru hrópandi dæmi um pólitískan rétttrúnað og ofurhollustu við ESB. Birtist þetta gjarnan í því að einhverjir innlendir sérfræðingar nota ESB-löggjöf til að koma eigin gæluverkefnum í framkvæmd. Á það vissulega við í þessu tilviki.

Vefþjóðviljinn vekur athygli á því í dag að fyrir fáeinum dögum hafi umhverfisnefnd ESB-þingsins samþykkt að sett verði 6% þak á notkun matjurta í eldsneyti. Kemur nú fram tillaga um 6% hámark í stað 10% lágmarks eins og nú er í gildi. Í áliti nefndarinnar segir meðal annars:

Notkun akurlendis til ræktunar á lífeldsneyti skerðir það land sem er til ráðstöfunar undir matvælaframleiðslu. Það eykur því líkurnar á því að nýtt land sé brotið undir ræktun matjurta, til dæmis að skógar séu ruddir. Þetta hefur verið nefnt óbein breyting á landnýtingu. Skógareyðing eykur útblástur gróðurhúsalofttegunda og getur þar með vegið á móti þeim ávinningi sem er af notkun lífeldsneytis.“

Ekki eru allir á einu máli um þetta á ESB-þinginu því að þar sitja þingmenn frá landbúnaðarhéruðum þar sem menn tóku að nýta akurlendi sitt í samræmi við 10% regluna og telja sig missa spón úr aski sínum með 6% reglunni.

Það er oft vandlifað innan ESB, að Steingrímur J. hafi kallað aukinn kostnað yfir Íslendinga með því að elta ESB og reynast jafnvel kaþólskari en páfinn í kröfum um lífeldsneyti er í samræmi annað sem honum fór illa úr hendi sem ráðherra. Hið óskiljanlega er að dýrkeypt axarsköft hans skuli enn við lýði.