30.9.2014 21:00

Þriðjudagur 30. 09. 14

Hér hefur verið gerð að umtalsefni umgjörðin sem fréttastofa ríkisútvarpsins kaus að setja um Kristsdaginn í fréttatíma sínum laugardaginn 27. september. Í dag er ástæða til að vekja máls á umgjörðinni sem Fréttablaðið kýs að nota í dag þegar það segir frá samningi menntamálaráðuneytisins við Ingu Dóru Sigfúsdóttur prófessor og samningi sem gerður var við hana í byrjun árs 2009 um æskulýðsrannsóknir.

Segir blaðamaðurinn sveinn@frettabladid.is að einkahlutafélagið Rannsóknir og greining ehf. sé í eigu „fyrrverandi aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar“, það er Ingu Dóru, og hafi fengið samtals um 50 milljónir frá ríkinu frá árinu 2006. Samningur, undirritaður í byrjun árs 2009, hafi verið gerður „fram hjá lögum um opinber innkaup“.

Vitnað er í Kristínu Halldórsdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar, sem talar almennt um eftirlitsskyldu ríkisendurskoðunar með samningum ráðuneyta við einkaaðila og hafi birt um það 10 skýrslur, í ljósi þess telji stofnunin „fullt tilefni til að taka umræddan samning til skoðunar" segir hún.

Þá segir að rekja megi sögu félagsins „aftur til ársins 1997 þegar Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, ákvað að leggja niður Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (RUM). Upp úr því varð til Námsmatsstofnun en rannsóknarhluti RUM var gefinn eftir til nýstofnaðs fyrirtækis, Rannsókna og greiningar ehf., samkvæmt ákvörðun Björns. Á þessum tíma, frá 1997-1998, var Inga Dóra Sigfúsdóttir, eigandi Rannsókna og greiningar ehf., í hálfu starfi fyrir menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, og í hálfu starfi hjá rannsóknardeild Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála. Einnig var hún aðstoðarmaður bæði Davíðs Oddssonar og Ólafs G. Einarssonar á kjörtímabilinu 1991-1995.“

Inga Dóra vann í menntamálaráðuneytinu þegar ég varð ráðherra þar árið 1995 og má kalla hana í starfi fyrir mig eins og aðra sem unnu að sérverkefnum þar á þeim tíma. Félagið sem um ræðir var stofnað árið 1999 eftir að Inga Dóra hætti í menntamálaráðuneytinu. Að Inga Dóra hafi verið aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar kemur mér á óvart, sé um að ræða aðstoðarmann í skilningi stjórnarráðslaganna.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvaða máli skiptir að á árunum 1991 til 1998 hafi Inga Dóra Sigfúsdóttir unnið að verkefnum innan ráðuneyta í tíð þeirra manna sem að ofan eru nefndar þegar Fréttablaðið fjallar um samning um rannsóknir sem gerður var 2009?