22.1.2014 22:40

Miðvikudagur 22. 01. 14

Nú dregur að 110 ára afmæli stjórnarráðsins. Á þeim tíu árum sem liðin eru frá hátíðarhöldunum í Þjóðmenningarhúsinu og ríkisráðsfundinum sem Ólafur Ragnar Grímsson sat ekki vegna skíðaferðar í Ameríku hefur orðið mikil breyting á stjórnarráðinu. Illu heilli hafa verið sett ný stjórnarráðslög. Áhersla á þjónustu við borgaranna hefur minnkað í þágu stefnumótunar og þróunar.  

Embættismenn framkvæmda lög, stefnumótun og þróun eru á verksviði stjórnmálamanna. Aðstoðarmönnum og hvers kyns hjálparkokkum ráðherra hefur fjölgað. Nú fara fram umræður innan veggja stjórnarráðsins um hvernig staðið skuli við kröfu alþingis um 5% sparnað á vettvangi þess. Verður áfram lögð áhersla á að fjölga þeim sem sinna öðru í stjórnarráðinu en að afgreiða mál sem borgararnir leggja fyrir ráðuneyti?

Af eigin raun hafa fjölmargir kynnst því að afgreiðsla mála innan stjórnarráðsins getur tekið óralangan tíma. Hið sama á við um mál sem lögð eru fyrir úrskurðarnefndir. Ég þekki þess dæmi að afgreiðsla máls sem lögum samkvæmt ber að taka innan við þrjá mánuði var um 18 mánuði í úrskurðarnefnd. Nefndin notaði að lokum formreglu en lét hjá líða að taka á efnisþáttum málsins. Að því leyti veitti úrskurðurinn enga leiðbeiningu varðandi álitaefnið sem um var spurt.

Seinagangur í stjórnsýslunni veldur keðjuáhrifum um allt þjóðfélagið, rýrir traust til stjórnarráðsins og grefur trúnni á að beitt sé góðum stjórnsýsluaðferðum. Það er mikið í húfi.