20.1.2014 22:30

Mánudagur 20. 01. 14

Löngum hefur verið látið eins og það mundi leysa allan vanda alþingismanna og auka virðingu þeirra að þeir fengju meira vald frá framkvæmdavaldinu, stjórnarráðið hefði minna um lagasetningu að segja en tíðkast hefur í þau tæpu 110 ár sem heimastjórn hefur verið í landinu. Nú reynir verulega á vegna hins aukna svigrúms þingmanna eins og fram hefur komið í umræðum um ákvörðun efnahags- og viðskiptanefndar þingsins um að hækka frískuldamark svonefnds bankaskatts í fimmtíu milljarða.

Hér er ekki ætlunin að fara í saumana á þessu máli enda eru einstakir þættir þess ekki á þann veg að auðvelt sé að átta sig á þeim þótt gagnsæi við töku ákvarðana ætti að aukast við afgreiðslu mála í þingnefnd. Kemur í ljós að enginn virðist í raun vita hvernig frískuldamarkið var ákveðið, hver átti tillöguna um 50 milljarðanna.

Nefndarmenn stjórnar og stjórnarandstöðu voru samstiga í málinu en nú lætur Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og einn nefndarmanna, eins og það hafi verið maðkur í mysunni. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarformaður, hefur orðið margsaga í málinu. Afsökun hans er sú að hann hafi haft svo margt á sinni könnu þegar unnið var að frágangi málsins í nefndinni að hann muni bara ekki hvernig ákvörðun um frískuldamarkið var tekin.

Tillögur úr stjórnarráðinu um mál sem þessi eru ekki lögð fyrir þingmenn án minnisblaðs eða greinargerðar.